Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1994, Page 179
MULAÞING
177
tók upp að mestu. Skaflar voru þó eftir hér og hvar. í jólaföstubyrjun
snjóaði aftur og dró saman í skafla. Var þá farið að smala fé saman, sem
gekk sjálfala úti, eins og venja var í sveitinni á þessum árum. Lömb voru
víða tekin í hús um þetta leyti.
Jón bóndi í Markúsarseli og Ingólfur vinnumaður hans fóru að smala
fénu saman. Þeir fóru inn fyrir féð í Afréttina, sem er vestan á Tungunni
og innst í dalnum. Gangan gekk vel, enda veður ágætt og smöluðu þeir
Afréttina og áfram út eftir.
Þegar kemur nokkuð út eftir dalnum er mikið framhlaup úr fjallinu,
sem hefur komið fyrir þúsundum ára og kallast Höfði. Hann rís upp frá
Hofsá og er mjög brattur, og er gatan tæp framan í Höfðanum. Höfðinn
er vel gróinn að framan og ofan.
Aliðið var dags, þegar þeir komu með féð úteftir, og farið að bregða
birtu. Þegar þeir nálguðust Höfðann, fór Ingólfur heldur á undan fram
með fénu, því hann vissi að snjó hafði lagt framan í Höfðann. Er hann
kom út að Höfðanum, var féð komið að skaflinum. Hann hugðist greiða
fyrir því út yfir skaflinn. Undir nýja skaflinum var eldri skafl, sem var
orðinn harður. Þegar hann kom að skaflinum, brast hann, hljóp fram og
tók Ingólf og kindur með sér niður og út á ána. Ain var á haldi, því frost
hafði verið undanfarið.
Þegar Jón kom á eftir fénu, hafði það runnið út yfir, en hann sá hvergi
Ingólf. Hann sá strax ummerkin eftir snjóflóðið og að Ingólfur hefði lent í
því. Hann fór niður eftir meðfram og kallaði, en varð ekki var við Ingólf.
Hann hafði ekkert í höndum og flýtti sér út í Markúsarsel, sem er lík-
lega rúmlega klukkustundar gangur, og svo strax út í Tunguhlíð, til þess
að fá hjálp. Þar bjó Albert bróðir Jóns. Stefanía Stefánsdóttir dóttir
Bjargar húsfreyju í Tunguhlíð og fósturdóttir Alberts, var send út að
Hofi. Albert fór með Jóni inneftir.
Er Stefanía kom í Hof, fór Sveinn bóndi Sveinsson strax á stað inneftir
til hjálpar. Sigurður Brynjólfsson frá Starmýri var vinnumaður á Hofi.
Hann var nýkominn úr göngu á Hofsdal. Hann fór út í Rannveigarstaði
með beiðni um hjálp. Ragnar Pétursson, sonur Péturs Péturssonar bónda
á Rannveigarstöðum, fór strax inneftir. Frá Rannveigarstöðum var sent
út í Hærukollsnes, sem er fram af fjallinu milli Hofs og Múla. Páll bóndi
Þorsteinsson fór í Múla, sem er austanvert við fjallið. Björn bóndi Jóns-
son hafði hesta á húsi. Stefán kennari Sigurðsson frá Reyðará í Lóni var
farkennari þennan vetur í Álftafirði. Har.n var á Múla hjá Karli bónda
Jónssyni. Hann fór með Bimi á hestum í Markúsarsel. Hæg norðanátt
var þetta kvöld og allbjart, þó var ekki tunglsljós en sá vel stjörnur.