Ægir - 01.07.2016, Blaðsíða 84
84
Veiðarfæraþjónustan í Grindavík hefur bryddað upp á þeirri nýjung að nota grannt trollnet í skver og
yfirbyrði á trollum og eru þau komin í
notkun hjá nokkrum togurum. Trollin eru
léttari í drætti og fylgja botninum betur en
troll með sverara garn. „Við erum með fjöl-
hæfan rekstur, erum að þjónusta togarana,
snurvoðarbátana, humarbáta, línubáta og
það sem eftir er af netabátum,“ segir Hörð-
ur Jónsson netagerðarmeistari.
Að vera skrefi á undan
„Svo er það sem allt snýst um, að fylgja
framþróuninni og reyna að vera skrefinu á
undan þar sem hægt er. Núna erum við til
dæmis mikið í trollum fyrir togarana úr
svokölluðu Dynema Fortis neti. Dynema
net í troll er svo sem ekkert nýtt, en við er-
um að nota efni frá Euronet sem er kallað
Fortis og það er svolítið stífara en það sem
mest hefur verið notað, tvíhnýtt og góð
hnútafesta í því. Þá erum við að nota
tveggja millimetra efni í staðinn fyrir fjög-
urra millimetra. Þetta erum við að nota í
skver og yfirbyrði og erum að létta þann
hluta trollanna. Það þýðir að þau fylgja
botninum betur vegna minni mótstöðu í
yfirbyrði og létta jafnframt á drættinum.“
Hörður segir að Færeyingar og Græn-
lendingar hafi aðeins verið í þessu. „Við
settum fyrsta trollið af þessari gerð upp
um áramótin fyrir Iliveq, sem er í eigu
dótturfélags Brims. Það kom mjög vel út og
í framhaldinu settum við upp troll fyrir
Hrafn Sveinbjarnarson sem þeir eru mjög
ánægðir með. Í ágústmánuði afhentum við
svo tvö troll fyrir Guðmund í Nesi, sem
dregur tvö troll í einu. Fleiri útgerðir eru að
fylgjast með þessu og að banka upp á hjá
okkur enda hefur reynslan hingað til verið
mjög góð og þá koma væntanlega ein-
hverjir aðrir og fylgja okkur eftir. Stóru
togararnir hafa ekki sýnt þessu mikinn
áhuga hingað til en eru nú tilbúnir til að
taka skrefið og nýta þetta nýja efni. Snur-
voðarflotinn hefur dregist mikið saman en
við eigum sem betur fer okkar kúnna og
menn hafa verið trúir okkur og aðrir hafa
komið inn. Svipaða sögu er að segja af
humarbátunum. Skipin á humarveiðum
eru orðin færri og öflugri, en við höfum þó
aðeins fengið að vera með puttana í hum-
artrollunum.“
Hefðbundin þjónusta
„Svo erum við í þessu hefðbundna eins og
að þjónusta línubátana með það sem til
þarf. Þetta er svona alhliða veiðarfæra-
þjónusta frá hinu smæsta upp í það
stærsta. Við setjum reyndar ekki upp ný
flottroll, en höfum verið með þau í við-
haldi hérna. Við höfum þá bæði verið að
þjónusta Þorbjarnarskipin og fleiri. Við
höfum líka verið að taka trollin frá Græn-
lendingunum og fara yfir þau þegar á þarf
að halda þegar þeir eru á makrílveiðum.“
Sex til sjö manns vinna hjá Veiðarfæra-
þjónustunni eftir því hvernig stendur á.
Allt eru það mjög reyndir menn. „Við erum
þrír hérna sem byrjuðum að vinna saman
sem táningar hjá Jóni Holbergs í gamla
daga. Aðrir hafa einnig verið mjög lengi í
greininni og hafa verið á sjó þannig að við
þekkjum vel bæði sjó- og landvinnu í
þessu. Nóg hefur verið að gera og mér sýn-
ist þetta ár vera betra en síðustu tvö til þrjú
árin á undan þannig að við erum bara
bjartir og ætlum ekkert að fara að ofurselja
okkur stóru fyrirtækjunum,“ segir Hörður
Jónsson.
veidarfaeri.is
Frá hinu smæsta
upp í það stærsta
Starfsmenn Veiðarfæraþjónustunnar: Theodór Vilbergsson, Sigurþór
Ólafsson, Steinþór Helgason, Sverrir Þorgeirsson, Hörður Jónsson. Á
myndina vantar Ólaf Þorgeirsson, sem var fjarverandi.