Skagfirðingabók - 01.01.2002, Page 98
SKAGFIRÐINGABÓK
fluttum vörum til þess að afla tekna. Danakonungur gaf lands-
mönnum í fyrsta skipti kost á því árið 1770, að velja sér versl-
unarfyrirkomulag. Þá voru tillögur Skúla teknar til alvarlegrar
skoðunar, en þær þóttu of róttækar fyrir dönsku stjórnina sem
og Islendinga. Bjarni Halldórsson (f. 1703) sýslumaður Hún-
vetninga, óskaði t.d. „einskis fremur en að landið mætti hafa
áfram sín gömlu lög, sína gömlu siði og sinn sérstaka rétt og
viðhalda fátækt sinni án frekari útgjalda, byrða og þyngsla".
Björn Markússon lögmaður kallaði einokunina „Malum Necess-
arium“, eða nauðsynlegt böl. Þessi skoðun var heldur ekki
fjarri amtmanninum, Ólafi Stefánssyni (f. 1731), en hann og
þeir Stefánungar (Stephensen-ættin) voru í forystu fyrir hinum
íhaldssamari embættismönnum og réðu líklega mestu um að
tillögur Skúla köfnuðu í fæðingu. Landsmenn máttu því búa
við verslunareinokun í sautján ár eftir það. Sú trú var rótgróin,
að erlendar hagfræðikenningar gætu ekki með nokkru móti
náð yfir íslenskar aðstæður og hefur sú meinloka reyndar lifað
góðu lífi allt fram á þennan dag. Stefánungar voru að mörgu
leyti hæfileikaríkir embættismenn og náðu miklum völdum
undir lok átjándu aldar. Eftirmaður Skúla sem landfógeti var
Magnús Stephensen (f. 1762) sem gegndi starfinu eitt ár. Stefán-
ungar unnu það meðal annars til afreka sér að leggja niður
biskupsembætti og skóla á Hólum árið 1801.
Hörmangarar á Hofsósi
Árið 1743, þegar Skúli hafði verið sýslumaður Skagfirðinga í
sex ár, var Islandsverslunin leigð hinu fræga Hörmangarafélagi
og dró þá brátt til tíðinda. Skúli keypti járn á Hofsósi árið
1745 og fann að það var svikið. Hann kallaði Skagfirðinga
saman til fundar og kom þá upp úr dúrnum, að ýmsir fleiri
höfðu verið prettaðir. Skúli sýslumaður sótti þetta mál og hafði
fullan sigur þótt yfirvald Húnvetninga, Bjarni Halldórsson á
Þingeyrum, tæki að sér vörnina fyrir kaupmann og beitti hin-
96