Skagfirðingabók - 01.01.2002, Blaðsíða 22
SKAGFIRÐINGABÓK
svifa sem að sjálfsögðu kröfðust fjármagns sem á þessum árum
lá fráleitt á lausu fyrir meðaljóna þessarar þjóðar, og þó síst úti
í hinum dreifðu byggðum sem urðu að treysta á eigið aflafé og
þá fyrirgreiðslu úr opinberum sjóðum sem fékkst með íhlutun
sveitarstjórna og alþingismanna. Helst voru það samvinnufé-
lögin, kaupfélögin, sem höfðu burði til fjármögnunar og komu
þar til eigin sjóðir og aðgangur að fjármagni gegnum Samband
íslenskra samvinnufélaga, sem eins og kunnugt er var eitt af
sterkustu fyrirtækjum þjóðarinnar á þessum árum.
Það er því ekki óeðlilegt þótt velt sé upp þeirri spurningu,
eftir hvaða leiðum Sigurði tókst að afla sér fjármagns og póli-
tískrar fyrirgreiðslu til að tryggja framvindu allra þeirra um-
svifa sem hann hafði forgöngu um og stýrði á löngum starfs-
ferli og margþættum. Það gerir málið síst einfaldara að flestir
þættir þeirrar starfsemi voru í beinni samkeppni við kaupfélag-
ið sem var stærsta og voldugasta fyrirtæki héraðsins.
Sigurður hafði sótt nám við Bændaskólann á Hólum í skóla-
stjóratíð Steingríms Steinþórssonar. Þá hafði Svanhildur systir
hans unnið hjá þeim hjónum, Páli Zóphóníassyni og Guðrúnu
Hannesdóttur, bæði heima á Hólum og einnig eftir að þau
fluttust til Reykjavíkur. Ekki er því ólíklegt, að góð kynni hafi
vaxið milli Grafarfjölskyldunnar og þeirra hjóna. Þá er þess að
geta, að Helga Baldvinsdóttir, fyrsta kona Sigurðar, var að
nokkru fóstruð af þeim hjónum, Hermanni Jónssyni og Elínu
Lárusdóttur á Ysta-Mói, en Hermann var náinn samstarfsmað-
ur og góðvinur Steingríms um langt árabil, pólitískur samherji
og varamaður á Alþingi. Sigurður studdi Framsóknarflokkinn
á árum sínum í Skagafirði, en þá var Steingrímur annar af al-
þingismönnum héraðsins og sat lengi í ríkisstjórn. Hann hafði
því í hendi sér flesta þræði til þeirra banka- og fésýslustofnana
sem réðu örlögum atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni.
Flestir, eða öllu heldur allir þeir sem leitað hefur verið til
með heimildir, hafa verið á einu máli um þá ályktun, að Stein-
grímur Steinþórsson hafi verið sá bakhjarl sem Sigurði var
20