Orð og tunga - 01.06.2017, Blaðsíða 25
Alda B. Möller: Íslenskukennsla í Bessastaðaskóla … 15
fyrsta vetur Björns sýnir að Sveinbjörn Egilsson kenndi þá vikulega 12
tíma í grísku, 2 í landafræði og 5 í sögu, Hallgrímur Scheving kenndi
12 tíma í latínu og 7 tíma í latneskum stíl, Jón Jónsson lektor kenndi 12
tíma trúfræði, 2 tíma hebresku, 4 tíma skýringar Nýja testamentisins
og 1 tíma danskan stíl, en Björn Gunnlaugsson kenndi 9 tíma reikning,
3 tíma dönsku og aðra 3 danskan stíl en 2 tíma í íslenskum stíl í neðri
bekk eingöngu. Vegna plássleysis gátu aðeins tveir kennarar verið í
bekkjum í einu en 36 nemendur voru í skólanum (Bps. 3a).
Í fyrstu ársskýrslu Björns sagðist hann hafa látið nemendur
skrifa danska stíla með þýðingum úr íslenskum texta Egils sögu en
íslenskukennslan fólst einnig í þýðingum úr dönskum textum þessa
tvo tíma vikulega í neðri bekk. Ekki er þeirra getið neitt nánar. Næstu
vetur voru tímarnir í íslenskum stíl fólgnir í að þýða latneska og danska
texta um sögu Danmerkur og léttan texta eftir Cicero. Björn kenndi
einnig latneskan stíl í neðri bekk og notaði til þess íslenskar bækur,
t.d. Snorra-Eddu, en piltar þýddu einnig úr Ólafs sögu Tryggvasonar
af íslensku á latínu og eftir leiðréttingar las hann þeim fyrir latneska
þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar.11 Í dönskutímum lét hann nemendur
lesa danska þýðingu próf. Rafns á Ólafs sögu Tryggvasonar og lét þá
finna fornleg og íslensk áhrif í danska textanum (Bps. 3a, Sk. 5–1, 5–15
og 6–1).
Haustið 1829 bætti Björn við frumlegu efni í íslenskukennslunni
og lét nemendur þýða úr Lærebog i Svömmekonsten eftir Gutsmuths en
næstu tvö árin las hann nemendum fyrir úr sögu Danmerkur, Noregs
og Holstens (Bps. 4b og Sk. 6–9). Næstu vetur voru skýrslur Björns
enn stuttar en oft var efni íslensku stílanna tekið úr bók eftir Cornelius
Nepos á þessum árum (Bps. 5a, 6a og Sk. 8–17).
Vorið 1835 var Björn enn að leiðrétta 18 íslenska stíla, 18 danska og
6 latneska tvisvar í viku í neðri bekk. Næstu vetur var þýtt úr danskri
lestrarbók Rahbeks, mannkynssögu Kofods og verkum Sesars í ís-
lenskum stíl en í dönskum stílum notaði Björn Fjölni og Sunnan póst-
inn til þýðinga (Bps. 6a, 6b, 7a, 7b). Þegar hér var komið sögu var ís-
lenskan kennd í fyrsta tíma á þriðjudögum og fimmtudögum en fram
að því höfðu latína og gríska ávallt átt fyrstu tvo tímana (Bps. 6a). Um
þetta leyti hættu einstakir kennarar að gefa skýrslu til stiftsyfirvalda
og var það þá á hendi lektors sem í fyrstu skrifaði skýrslur á dönsku
11 Hér er átt við útgáfu á Fornmanna sögum á vegum Fornfræðafélagsins í ritröðinni
Scripta historica Islandorum, de rebus gestis veterum borealium, í þýðingu Sveinbjarnar
Egilssonar. Ólafs saga Tryggvasonar á latínu kom út í þremur bindum 1828–1829
og mun hér átt við þá útgáfu.
tunga_19.indb 15 5.6.2017 20:27:30