Orð og tunga - 01.06.2017, Blaðsíða 146
136 Orð og tunga
Einnig var t.d. sett út á það ef aukatengingin að var ofsett (sem að,
ef að) eða vansett (þó; því) og ef notaðar voru hv-tilvísunartengingar
(þeir dagar mundu koma, á hverjum þeir hefðu ekki neitt). Þá má nefna
eignarliði á forsviði nafnliðar og forsetningu í stað eignarfalls (tálmar
andans framför hjá manninum; getur hjálpað mannsins bágu kjörum; hlaupa
yfir gallana á oss; sameinað við fagnaðarboðskapinn; eitt af þessum jarðnesku
gæðum). Síðarnefnda atriðið bendir e.t.v. til eindregnari afstöðu gegn
notkun fs. þar sem hægt var að nota ef. eða eignarfornafn en nú á
tímum. Þá átti samræmi með samsettum liðum til að vefjast fyrir
nemendum (þessi auðmýkt og kristilega lítillæti; tekin fram tilefni og
afleiðingar; að sækja allt sitt von og traust til guðs), sem einnig gat birst
í fallmörkun (lýsa og verma jörðunni), auk þess sem viðtengingarhátt
hefur átt að nota í vafamerkingu (því einginn maður veit, hversu lengi
hann þarf á þeim að halda).
Athyglisvert er frá sjónarmiði málhreinsunarstefnu að leiðréttingar
eru á fyrnsku og fornlegum breytileika (um þenna góða ásetning; dimmr
líkami; vjer hefðim; enum fjórtánda (f. hinum); annar flýði úr landi). Þá er
strikað undir ýmis orð og sambönd sem sennilega teldust flest vel
rithæf nú á dögum, t.d. á ný, eyðileggja/eyðilegging, hvað e-ð snertir,
innifalinn, kringumstæður, maðurinn (tegundarheiti), (ó)mögulegt, sjald-
gæft, strax, tillit / í tilliti (til), umhyggja fyrir, viðvíkja/viðvíkjandi, víða,
(betur) æfður og ætíð, auk annarra sem enn eru ekki viðurkennd í
formlegu málsniði svo sem bara, brúka, fiskirí, innbúi, kan(n)ski, meina/
meining, nefnilega, pössun, ske, spursmál o.fl.
Í næstu undirköflum munum við nú snúa okkur nánar að þeim
þremur atriðum sem nefnd voru hér á undan, óákv. fn. maður, stöðu
sagnar í aukasetningum og lausum greini. Til skýrleiksauka er í dæm-
um vísað til útgáfu Braga Þorgríms Ólafssonar (2004) með „BÞÓ-“,
auk ártals og blaðsíðutals ef dæmin eru þaðan, en „L-“ auðkennir
dæmi úr sérathuguninni á leiðréttingum.
4.2 Óákveðna fornafnið maður
Löngum hefur verið amast við notkun óákv. fn. maður (sbr. t.d. Kjartan
G. Ottósson 1990, Hrafnhildi Ragnarsdóttur og Strömqvist 2005). Í því
samhengi hefur íslenskukennarinn Halldór Kr. Friðriksson jafnvel
verið nefndur sérstaklega:
Fróðlegt væri að vita hvernig Halldór Kr. Friðriksson leið-
beindi nemendum við að rita móðurmálið, hvað það var sem
tunga_19.indb 136 5.6.2017 20:27:54