Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 18
17
Ritið 3/2017, bls. 17–47
Jóhann Páll Árnason
Byltingin meðal byltinganna
Hugleiðingar um rússneska hrunið og afleiðingar þess
Hugtök og söguskeið
Áður en vikið verður að atburðunum sem nú teljast aldargamlir, er rétt að
gera stutta grein fyrir hugtökum og viðmiðum. Í orðræðu félags- og hugvís-
inda kemur nafngiftin bylting fyrir í a.m.k. fjórum mismunandi merking-
um. Algengt er að hún vísi til afgerandi tímaskila, hraðra atburðarása sem
skipta sköpum í sögu ríkja og þjóðfélaga. Við það er t.d. átt þegar franska
byltingin er ársett 1789, og er þá oftast vitnað í áhlaupið á Bastilluna og
setningu stéttaþingsins sem tafarlaust breytti sér í þjóðþing. Sama gildir
um febrúarbyltingu og októberbyltingu ársins 1917 í Rússlandi; hin fyrr-
nefnda steypti keisarastjórninni, en hin síðari markaði upphaf einræðis af
nýrri tegund. Annað sjónarmið leggur áherzlu á lengri úrvinnsluferli, sem
leiða þýðingu umskiptanna í ljós og meðfylgjandi átök til einhvers konar
lykta. Oftast verður þá ágreiningur um nánari tímasetningu, og aftur má
nefna frönsku byltinguna sem augljóst dæmi. Stytzta tímabilið sem til
greina kemur er rúmur áratugur, 1787 til 1799. Þá er upphafið miðað
við umbótatilraunir og mótspyrnu sem fóru á undan aðalárekstrinum, en
endirinn við valdatöku Napóleons. Ekki er þó fjarri lagi að telja Napóleon
til afkomenda og arftaka byltingarinnar, jafnvel í anda róttækni af þeirri
tegund sem jakobínar höfðu sett á oddinn (síðastnefnd skoðun hefur öðru
hvoru verið orðuð, m.a. í æskuritum Marx). Þannig séð er það aldarfjórð-
ungurinn frá 1789 til 1815 sem máli skiptir. Þriðju túlkunina, að mínu
viti nokkuð vel ígrundaða, setti áhrifamikill sagnfræðingur fram í riti sem
hann kallaði „Byltingin 1770–1880“.1 Aðdragandann vill hann rekja lengra
1 François Furet, Revolutionary France 1770–1880 (Oxford: Oxford University Press,
1995). Bókin kom fyrst út á frönsku 1988. Strax í byrjun segir Furet að loforð
byltingarinnar um pólitískt frelsi hafi ekki verið varanlega uppfyllt fyrr en á árunum
1876–1877, með sigri lýðveldissinna yfir konungssinnum; í bókarlok segir svo að