Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Side 20
19
merkingarnar, komi lengri tímaskeiðum eða atburðarásum ekki við. Áður
fyrr var oft talað um „byltingarnar tvær“ í lok átjándu aldar, og þá átt við
frönsku stjórnarbyltinguna og iðnbyltinguna í Englandi. Þessi túlkun gerði
ráð fyrir hraðari framvindu og fyrri tímamótum iðnvæðingar en nú tíðkast.
Enn er þó hægt að velta fyrir sér tengslum milli stjórnarbyltinga, báðum
megin Atlantshafsins á síðari hluta átjándu aldar og fyrri hluta þeirrar
nítjándu, og iðnvæðingarferlanna sem fyrr eða síðar breyttu þjóðfélögum
á sama svæði. Í Kommúnistaávarpinu var á sínum tíma sett fram sögu-
skoðun sem rakti hvort tveggja til sameiginlegs upphafsaðila, svokallaðrar
borgarastéttar; áhrif þeirrar kenningar náðu langt út fyrir raðir þeirra sem
aðhylltust pólitískan boðskap ávarpsins.
Fjórða og síðasta tilvísun byltingarhugtaksins er ólík hinum, en ekki alls
kostar óviðkomandi. Hún snýst um alhliða breytingar sem taldar eru jafn-
gilda upphafi að nýjum lífsmáta. Af þeim toga er hugmyndin um „nýstein-
aldarbyltinguna“ (e. neolithic revolution), umdeild að vísu, en hvergi nærri
útrædd, og af ýmsum höfundum talin eiga við ein mestu tímamót mann-
kynssögunnar. Lágmarksskilgreining er að hún marki upphaf landbún-
aðar, fastrar búsetu og stækkandi byggðakjarna, en þessar nýjungar hafa
oft verið settar í samband við allsherjar endurtúlkun heimsmyndar. Claude
Lévi-Strauss taldi nýsteinaldarbyltinguna skilja á milli tvenns konar þjóð-
félaga, þeirra sem létu söguna líða hjá og þeirra sem gáfu sig henni á vald;
hin fyrrnefndu ná yfir ósambærilega miklu lengra tímabil, og Lévi-Strauss
var ekki bjartsýnn á framtíð hinna síðarnefndu. Fornleifa- og forsögufræð-
ingar eru nú sammála um að landbúnaður og föst búseta hafi komið fyrr til
sögunnar en lengi var álitið, og sumir þeirra færa rök að trúarbragðabylt-
ingu sem nauðsynlegum og mótandi þætti umskiptanna. Í því sambandi
má minna á að meiri háttar trúarbragðaskipti á síðari tímum hafa verið
kennd við byltingu; það á sér í lagi við um íslam, og er þá vísað til meintra
inngripa þeirra trúarbragða á öllum sviðum tilverunnar. Meðal klassískra
höfunda, sem töldu upphaf og útþenslu íslams jafngilda byltingu, ber fyrst
að nefna Gibbon og Hegel.3
3 Nefna má fleiri tilbrigði við þetta þema, ekki sízt nýlega bók eftir þýzka Egypta-
landsfræðinginn Jan Assmann, Exodus: Die Revolution der Alten Welt (München:
C.H. Beck, 2015). Assmann telur frásögn biblíunnar af flótta Gyðinga frá Egypta-
landi til fyrirheitna landsins, sem skráð er í annarri Mósebók, jafngilda nýrri og
byltingarkenndri sýn á trúarbrögð, siðferði og samfélag; skiptir þá ekki máli að
hve miklu leyti er stuðzt við sögulega atburði. Aðalatriðið er frásögnin sjálf og
guðfræðilegt innihald hennar, þ.e.fyrst og fremst opinberun Jahve og sáttmáli hans
við Gyðinga.
BYLTINGIN MEðAL BYLTINGANNA