Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 21
20
Síðasttalda merkingarsvæðið verður hér ekki til nánari umræðu. Ástæða
er þó til að hafa eitt atriði í huga: ímyndanir um algert rof og nýja byrjun
sögunnar, sambærilegar við þær sem reistar eru á trúarlegum forsend-
um, tilheyra hugarheimi byltinganna sem varðað hafa leiðina til nútímans,
einkum þeirra amerísku, frönsku og rússnesku (hér er miðað við þá túlkun,
sem nú virðist góðum rökum studd, að tala megi um frumnútíma (e. early
modernity) frá því um 1500 til loka átjándu aldar, en síðan um áframhald-
andi sögu þróaðs nútíma (e. advanced modernity). Sams konar viðmið með
neikvæðum formerkjum eru ekki óþekkt. Tveir sovézkir andófsmenn í
útlegð gáfu út sögu Sovétríkjanna og héldu því fram í formálanum að
homo sovieticus væri jafn mikil nýjung og homo sapiens var á sínum tíma, en
stórum illvænlegri.4 Meiri ofsjónir eru líklega vandfundnar í ritum sem til
sagnfræði teljast.
Leiðir til skilgreiningar
Hér á eftir verður fjallað um rússnesku byltinguna í ljósi hinna tveggja
fyrstnefndu viðmiða, tímamótaatburðar og úrvinnsluferlis. Fyrst er þó
ráðlegt að skýra bæði fyrirbærin eitthvað nánar. Bylting er, í sem stytztu
máli, hröð og samtvinnuð breyting pólitískrar og félagslegrar valdaskip-
anar. Formgerð ríkisvaldsins breytist í þrennu tilliti: lögmæti, stofnanir og
samsetning valdaelítu taka stakkaskiptum. Að sama skapi breytist valda-
skipting milli þjóðfélagshópa, þar á meðal en ekki eingöngu stétta og ekki
nauðsynlega í gegnum miðlæg stéttaátök. Beinir gerendur eru yfirleitt
flókin og breytileg bandalög mislitra hópa, og innan þess ramma myndast
forystur af meira eða minna stöðugu tagi. Á hinn bóginn er þess að gæta
að byltingar eru ekki „gerðar“ af ásetningi, forsjá eða skyldu (haft var ein-
hvern tíma eftir Fidel Castro að fyrsta skylda byltingarsinna væri sú að
gera byltingu). Þær eru aldrei annað en sambland athafna og ferla, og oft
hefur réttilega verið bent á að engri byltingu lauk með uppfyllingu áforma,
hvorki upphaflegra né endurskoðaðra. Söguleg félagsfræði byltinga er
þannig tengd almennari áherzlu á ferlagreiningu (e. process analysis) og
meðfylgjandi gagnrýni á kenningar, sem ofmeta aðrar hliðar þjóðfélagsins.
Hvorki verknaðar- né kerfiskenningar eru vel til þess fallnar að varpa ljósi
á byltingarfyrirbæri.
4 Mikhail Heller, Aleksandr M. Nekrich, Utopia in Power. A History of the Soviet Union
to the Present (New York: Summit Books, 1988), bls. 11.
JÓhann PÁll ÁRnason