Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 22
21
Það sem að ofan segir er lágmarksskilgreining, og nokkrum athuga-
semdum verður að bæta við hana. Ekki verður gengið fram hjá þeirri stað-
reynd að hugmyndafræðileg viðmið hafa sett mark sitt á þær byltingar,
sem hæst hlýtur að bera í samanburðarsögu og -greiningu; en þeir sem
mest vilja gera úr valdaformum, valdaátökum og valdaskiptum hneigjast
þar af leiðandi til að takmarka svigrúm hugmyndafræðinnar. Þáttur henn-
ar er þá gjarnan einskorðaður við myndun byltingarsinnaðra samtaka og
ákall til breiðari stuðnings, en þýðing hennar sem leiðarvísir til aðgerða og
fyrirmynd að breytingum er dregin í efa og bent á að í áhrifamestu bylt-
ingum nútímans hafi hún ekki leikið slík hlutverk.5 Þeim rökum má and-
mæla með tilvísun til flóknari tengsla. Byltingar láta að vísu ekki stjórnast
af beinum hugmynda fræðilegum forskriftum, en byltingarferli geta styrkt
ákveðnar túlkanir á kostnað annarra, leitt í ljós ófyrirséðar eða a.m.k. van-
metnar afleiðingar viðtekinna hugmynda, og afhjúpað misræmi milli skiln-
ings forystu og stuðningsafla á sameiginlegum viðmiðum. Allar þessar
hliðar málsins voru, eins og rætt verður hér að neðan, mikilvægar í sögu
rússnesku byltingarinnar. En þegar að almennum kenningum um bylting-
ar kemur, má reikna með varanlegum ágreiningi um vægi og hlutverk hug-
myndafræðilegra þátta, og hann magnast ekki aðeins af því að viðkomandi
fyrirbæri taka á sig ýmsar myndir í mismunandi samhengi byltingarferla,
heldur einnig af þeim ástæðum að sveiflur og vegaskil í sögu þeirra síðar-
nefndu geta breytt sýn á hugmyndafræðileg deiluefni. Nú orðið er tæplega
dregið í efa að róttækari armur frönsku upplýsingarinnar hafði afgerandi
áhrif á byltinguna í lok átjándu aldar, en skoðanir eru skiptar um nánara
samband milli einstakra hugsuða og stjórnmálahópa (nýjasta meiri háttar
innleggið í þá umræðu er bók Jonathans Israel, sem endurskoðar ýmis við-
tekin sjónarmið).6
Önnur spurning snertir þátt ofbeldis í byltingum. Ósjaldan hefur í
seinni tíð verið talað um byltingar án ofbeldis, og er þá ekki sízt vísað
til breytinganna í Austur-Evrópu 1989. Þetta snýst, ef nánar er athugað,
um skilgreiningar og viðmiðunardæmi. Ógerningur væri að telja upp öll
tilfelli, sem ratað hafa í orðræðu um byltingar, og finna þeim samnefn-
ara. Eina færa leiðin er sú að miða við nokkur heimssöguleg straumhvörf,
5 Sjá Theda Skocpol, States and Social Revolutions (Cambridge: Cambridge University
Press, 1978).
6 Jonathan Israel, Revolutionary Ideas. An Intellectual History of the French Revoluti-
on from the Rights of man to Robespierre (Princeton: Princeton University Press,
2015).
BYLTINGIN MEðAL BYLTINGANNA