Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 23
22
sem liggja til grundvallar öllum nútíma ímyndum og túlkunum byltinga.
Fimm slík dæmi hafa lengi verið talin vegvísandi: enska, norður-ameríska,
franska, rússneska og kínverska byltingin. Ýmsir höfundar myndu fallast á
að bæta við listann tveim byltingum á tuttugustu öld, vegna þess hve sér-
stæðar þær voru og vel til þess fallnar að vekja efasemdir um algeng skiln-
ingsmynztur. Átt er við byltingarnar í Mexíkó 1910–1920 og Íran 1978–
1980. Hin síðarnefnda er mönnum í ferskara minni og enn að ýmsu leyti
ráðgáta; hin fyrrnefnda tilheyrir liðnu skeiði og er lítt til hennar vitnað, en
nokkur atriði eru umtalsverð. Líklega hafa engin byltingarátök verið háð
af jafn tvístruðum fylkingum. Því tengist annað einkenni mexíkönsku bylt-
ingarinnar: þáttur hugmyndafræðinnar var í minnsta lagi, þó ekki svo að
engu skipti fyrir framvindu mála. Gagnstætt því sem oft er haldið fram um
hugmyndafræðilegar rætur ofbeldis var allt byltingarferlið í Mexíkó mjög
blóðugt. Þess utan er athugavert að vanþróuð hugmyndafræði bylting-
arinnar stóð ekki goðsagnavæðingunni eftir á fyrir þrifum.
Ef þannig er tekið á málum, virðist skynsamlegast að skoða breiðara
mengi byltingarfyrirbæra í ljósi hugtaks, sem Wittgenstein stakk upp á og
hefur síðan fengið nokkurn byr í félagsvísindum. Talað er um „ættarsvip“
(e. family resemblances) þegar dreifing vissra einkenna myndar aðgrein-
anlegan hóp, án þess þó að sama mynztrið endurtaki sig í öllum tilfellum
eða hægt sé að skilgreina einfaldan og algildan samnefnara. Á því sviði sem
hér um ræðir getum við reiknað með miklum fjölda atburða og ferla, sem
talin eru oft eða almennt til byltinga og líkjast áðurnefndum dæmum að
umtalsverðu leyti, en verða ekki heimfærð undir neina allsherjarformúlu.
Þar á ofan má gera ráð fyrir vafatilfellum og óvissu um breytingar sem
ekki eru komnar í nægilega skýran farveg (hið síðara á líkast til við um
Austur-Evrópu eftir 1989). Auk þeirra þátta sem nú voru nefndir, hug-
myndafræði og valdbeitingar, mætti lengi telja fleiri breytur. Hér verður
aðeins nefnd ein slík, og hún skipti meira máli fyrir byltinguna í Rússlandi
en nokkra aðra. Byltingar eru oft nátengdar styrjöldum; sú hlið sögunnar
hefur lengi verið vanrækt af félagsvísindum, bæði almennum og þeim sem
sér í lagi fást við nútímavæðingu (tveir þýzkir félagsfræðingar kalla þetta
Kriegsverdrängung.)7 Nánari athugun sýnir að styrjaldir og byltingar tengj-
ast með margvíslegum hætti, og samanburðarrannsóknir á þeim hafa enn
verk að vinna. Nokkuð algengt er að bylting leiði til borgarastríðs eða nái
7 Hans Joas, Wolfgang Knӧbl, Kriegsverdrängung (Frankfurt am Main: Suhrkamp
2008).
JÓhann PÁll ÁRnason