Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Side 25
24
reyndist lífseigari en víða annars staðar í Austur-Evrópu, hins vegar sú
tegund umbótakommúnisma sem harðast rakst á við Sovétríkin og olli þar
með mesta álitshnekki þeirra í Evrópu eftir stríð.
Byltingar tengjast einnig milliríkjastríðum, sér í lagi stórveldaátökum.
Hér verður aðeins minnzt á afgerandi dæmi. Norður-ameríska byltingin
brauzt út í kjölfar stórveldastríðs, sem margir sagnfræðingar vilja nú kalla
fyrstu heimsstyrjöldina („sjö ára stríðið“ 1756–1763), en eftir nokkurt hlé.
Franska byltingin leiddi til stórveldastríðs, sem öll Evrópa dróst inn í og
hafði örlagaríkar afleiðingar sums staðar utan hennar. Rússneska byltingin
var aftur á móti bein afleiðing stórveldastríðs og náði hámarki áður en því
lauk. Flóknast var í þessu tilliti byltingarferlið í Kína; þar blandaðist borg-
arastríð í áföngum við röð milliríkjastríða. 8
Rússneskar aðstæður og forsendur
Áður en lengra er haldið ber að stað- og tímasetja rússnesku byltinguna.
Eins og getið var í upphafi greinarinnar eru langtíma breytingarferli oft
kennd við byltingar; stjórnar- og þjóðfélagsbyltingar er rétt að greina
frá þeirri sögulegu vídd og forðast hugtakaþenslu. En samhengið skiptir
máli. Bakgrunnur hinna „tíu daga sem skóku heiminn“ mótaðist sumpart
af langtíma ferlum, og er einkum þrenns að gæta. Ríkismyndunarferli
eru meðal helztu viðfangsefna sögulegrar félagsfræði, og oft rakin yfir
8 Einhverjir lesendur kunna að velta því fyrir sér hvort nefna eigi fasismann í þessu
sambandi. Í sem stytztu máli er því til að svara, að samanburður er erfiður vegna
þess hve dæmin eru fá og valdatíminn stuttur. Strangt tekið voru aðeins til tvær
sjálfstæðar fasistastjórnir, á Ítalíu og í Þýzkalandi; sú fyrrnefnda var við völd í tvo
áratugi, sú síðarnefnda í tólf ár. Í hvorugu tilfellinu var um þjóðfélagsbyltingu að
ræða; fasískar hreyfingar komust til valda í krafti bandalags við ráðandi elítur, og
markmiðið var að endurreisa eða byggja upp stórveldi (þýzka afbrigðið stefndi að
heimsyfirráðum; heimspekingurinn Karl Löwith lýsti því svo að atburðir ársins
1933 hefðu verið áframhald þess sem gerðist 1914, með öðrum aðferðum). Af-
nám kapítalisma og arftekins ríkisvalds var ekki á dagskrá, heldur voru þau tekin í
þjónustu stórveldisstefnu og þjóðernisöfga. Í framkvæmd líktist þessi strategía að
ýmsu leyti byltingum, en verður í hæsta lagi talin til jaðarfyrirbæra af þeim toga.
Öflugustu fasistahreyfingar utan Ítalíu og Þýzkalands risu upp í Ungverjalandi og
Rúmeníu; þær hefðu aldrei getað framfylgt sambærilegri stórveldisstefnu, en náðu
heldur ekki völdum sem gefið gætu til kynna hvernig þær hefðu spilað úr stöðunni.
Bezta umfjöllun um fasisma er líklega Michael Mann, Fascists (Cambridge: Cam-
bridge University Press, 2007).
JÓhann PÁll ÁRnason