Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 33
32
ólgan innan hersins þannig ekki annað en afleggjari þess sem var að ger-
ast á breiðara þjóðfélagssviði. Nýlegri rannsóknir hafa leiðrétt þessa mynd
og sýnt fram á að andóf og valdatilfærsla innan herstofnana fara sérstakar
leiðir, veikja ríkisvaldið á beinni og alvarlegri hátt en þjóðfélagsumbrot ein
og sér gera, og leiða auðveldlega til hámarkaðrar róttækni; tekizt er á við
yfirvald af harðneskjulegasta tagi, og andstaðan verður að því skapi óbil-
gjörn.20 Bolsévíkar voru fyrst í stað, innan Rússlands og utan, oft kallaðir
„maxímalistar“, og var þá varla meira sagt en að þeir vildu ganga lengst
allra í byltingarátt, án þess að nánar væri gáð að markmiðum. Sú ímynd
hafði ákveðið aðdráttarafl, og ekki sízt meðal hermanna í uppreisnarhug. Í
öllu falli virðist ljóst að upplausnar- og uppreisnarferli rússneska hersins á
tímabilinu febrúar til október 1917 var oftar en einu sinni afdrifaríkt fyrir
heildarþróun mála. Það gróf undan bráðabirgðastjórninni og veikti hana
gagnvart ráðunum; á síðara stigi gerði það róttækari stjórn ókleift að halda
velli í stríðinu við Þýzkaland og Austurrísk-ungverska keisaradæmið; og að
lokum voru hersveitir, sem bolsévíkar höfðu náð tökum á (ekki fjölmennar,
en þungar á vogarskálunum þegar við því nær óvopnfær stjórnvöld var að
eiga), lykilaðili að valdatökunni í Pétursborg og enn frekar að átökunum í
Moskvu. Bezta dæmið um samspil heruppreisna og ráðahreyfingar er virk-
isborgin Kronstadt, sem allt frá febrúarbyltingunni (og eftir afar harkaleg-
ar aðgerðir gegn yfirmönnum) var undir sjálfstæðri ráðstjórn, síðan styrk-
asta stoð bolsévíka þar til yfir lauk í Pétursborg, en miðstöð alvarlegustu
gagnárásar gegn einræði þeirra 1921.21
Tvíveldið var, í stuttu máli sagt, aðeins upphaf að flóknu valddreifing-
arferli, og átti því takmarkaðan þátt í myndbreytingum byltingarinnar. Í því
sambandi er rétt að minnast á söguskýringu, sem oft er höfð eftir Lenín:
byltingarástand skapast samkvæmt henni þegar valdhafar geta ekki lengur
haldið í hefðbundna stjórnarhætti og undirstéttir vilja ekki lengur una
þeim. Rússland í aðdraganda byltingar er þá talið sígilt dæmi. Meint spak-
mæli Leníns þola sjaldnast nánari skoðun, og svo er einnig um þessa kenn-
ingu. Það er ofureinfölduð lýsing að rússneskir valdhafar – eða breiðari
valdaelíta – í byrjun tuttugustu aldar hafi ekki séð sér fært að viðhalda
óbreyttu fyrirkomulagi. Reynslan af ófullnaðri byltingu, 1905 og næstu
20 Ýtarlegustu rannsókn á upplausn hersins er að finna í Allan K. Wildman, The
End of the Russian Imperial Army, v. 1–2, (Princeton: Princeton University Press,
1980–1987)..
21 Saga ráðstjórnarinnar í Kronstadt er rakin í Israel Getzler, Kronstadt 1917–1921:
The fate of a Soviet Democracy (Cambridge: Cambridge University Press, 1983).
JÓhann PÁll ÁRnason