Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 34
33
árin þar á eftir, var frekar á þann veg að í tvö horn skipti milli þeirra sem
töldu lágmarksaðlögun að stjórnarskrárbundnum reglum ásættanlega, og
hinna sem ekki vildu slaka á arfgengu einveldi. Síðarnefndu afstöðuna tóku
ekki aðeins keisarinn og hans nánustu, heldur einnig áhrifamenn úr æðstu
röðum, sumir hverjir á rökstuddum forsendum.22 Ástandið var m.ö.o. ekki
þannig að ráðvillt og valkostalaus elíta stæði frammi fyrir alþýðu í upp-
reisnarhug. Brotalömin milli valdakjarnans og stofnanatengdra mótvæg-
isafla var fyrir hendi, og sundurþykkið náði hámarki þegar fjöldamótmæli
bættust við vanhæfan stríðsrekstur; það var sem áður getur upphafið að
febrúarbyltingunni.
Formúla Leníns er engu síður villandi þegar kemur að breiðari og rót-
tækari byltingarferlum ársins 1917. Hún gefur í skyn meiri einhug og sam-
stillingu en nokkurn tíma var til staðar. Sú tálsýn byggðist á hugmynda-
fræðilegum forsendum. Lenín hafði þegar á fyrsta áratug aldarinnar smíðað
sér leiðarvísi að byltingu í Rússlandi; hann samanstóð af stórlega einföld-
uðum marxískum kenningum um stéttabaráttu, hugmyndum teknum í arf
frá eldri kynslóðum rússneskra byltingarsinna, og niðurstöðum Leníns
sjálfs af athugunum á rússnesku þjóðfélagi (ekki skyldi þó gera of mikið úr
þekkingu hans á rússneskum aðstæðum; hann hrapaði snemma að afgerandi
ályktunum, var síðan allt til 1917 lengst af í útlegð, og virðist ekki hafa haft
mikinn áhuga á frekari prófun). Meginforsendan var sú að í Rússlandi væru
stjórnmál og þjóðfélagsþróun skemmra á veg komin en á Vesturlöndum, og
borgaraleg bylting því enn á dagskrá, en vegna veikrar stöðu borgarastétt-
arinnar og væntanlegs styrkleika róttækari afla mundi verkalýðsstéttin (í
bandalagi við bændur) hafa meiri áhrif á framvindu og útkomu þeirrar bylt-
ingar en verið hefði í öðrum tilfellum. Þessi strategía var aldrei auðskilin,
en fyrri heimsstyrjöldin og ófarir rússneska stórríkisins gerðu Lenín kleift
að beina henni í nýja átt (þó virðist hann framan af stríðsárunum frekar hafa
reiknað með byltingarsigri í Þýzkalandi). Ferlið sem byrjaði í febrúar 1917
opnaði tækifæri til hraðari sóknar, og heimsveldastríðið – sem Lenín hélt
vera fjörbrot kapítalismans – hleypti nýju lífi í hugmyndir um heimsbylt-
ingu. Á þessum nýju horfum byggðist bandalag Leníns og Trotskís, og báðir
voru ómissandi þegar að októberbyltingunni dró.
22 Á seinni árum hafa sagnfræðingar vakið athygli á minnisblaði eftir Pjotr Durno-
vo, fyrrverandi innanríkisráðherra, skrifuðu rétt fyrir stríð sem viðvörun við því.
Durnovo virðist hafa séð fyrir óstöðvandi þróun byltingarinnar í róttækniátt; á
hinn bóginn verður ekki annað séð en hann hafi talið áframhaldandi einveldi einu
vörnina gegn þeirri hættu.
BYLTINGIN MEðAL BYLTINGANNA