Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 38
37
urvegara) í áður óþekkta og engum fyrirsjáanlega tegund valdboðsstjórn-
enda. Straumlínulagaðar skýringar koma hér að litlu gagni, og engu tali
tekur sú kenning að Hvað ber að gera? innihaldi fullbúið módel alræðis,
sem aðeins hafi þurft að hrinda í framkvæmd á breiðari vettvangi. Svo
einfalt er samband hugmyndafræði og söguferla aldrei. Hvað ásetning og
væntingar Leníns sjálfs snertir er ólíklegt að hann hafi reiknað með þeirri
stefnu sem atburðirnir tóku eftir að bolsévíkar lokuðu stjórnlagaþinginu
í ársbyrjun 1918. Enginn vafi leikur á því að hann hafnaði samvinnu við
aðra flokka, en allt framferði hans mánuðina fyrir og eftir október 1917
bendir til oftrúar á eigin styrk bolsévíka og hliðhollar aðstæður. Hann
gerði sér vonir um meiri fjöldastuðning innanlands en raun varð á, ofmat
stórlega líkur á byltingu vestar í álfunni, og virðist vorið 1918 hafa talið að
borgarastríðinu væri því sem næst lokið. Það var ekki frá byrjun ætlun hans
að binda endi á stríðið með algerri uppgjöf og landamissi á borð við þann
sem samið var um í Brest-Litovsk í mars 1918. Lenín var fljótur að gera
sér grein fyrir áföllum og bakslögum, en sú reynsla haggaði aldrei við hug-
myndafræðilegum forsendum sem auðvelduðu honum að tengja nauðsyn-
legar stefnubreytingar við eflda valdaeinokun.26
Samspil og árekstrar byltingarferla
Eins og áður var vikið að, áttu erfiðleikar bolsévíka eftir fyrsta áfangann
ekki sízt rætur að rekja til margbreytni byltingarferlanna, sem þeir vildu
ná tökum á. Sagnfræðilegar rannsóknir á byltingum, sér í lagi þeim sem
til meiri háttar tímaskila teljast, hafa ósjaldan beinzt að flóknum víxl-
verkunum samruna og sundrungar. Óumdeilt er að í Frakklandi komu á
fyrsta stigi margar byltingar saman í einni; það skýrir atburði ársins 1789
og þeirra næstu, en fljótlega skildi leiðir og kom til átaka. Vegna stærð-
ar og fjölmenningar keisaradæmisins, svo og óeiningar byltingaraflanna
þegar í upphafi, lá margbreytni rússneska byltingarferlisins í augum uppi;
á hinn bóginn leiddi skjótur sigur og langvarandi alræði eins þátttakanda
til þess að lítið var gert úr öðrum, og reynt að sýna fram á samfellda rök-
vísi atburðarásarinnar allt frá febrúar 1917. Þess háttar túlkanir byrjuðu
á því að ýkja þátt bolsévíka í fyrstu mótmælaaðgerðunum og eigna þeim
26 Lenín var furðulegt sambland af grillufangara og raunsæismanni, hvort tveggja á
háu stigi. Þessu er einkar vel lýst í bók Wolfgangs Ruge Lenin: Vorgänger Stalins
(Berlin: Matthes & Seitz, 2015); hún má teljast til þess bezta sem skrifað hefur verið
um Lenín, en mun lítt þekkt utan Þýzkalands.
BYLTINGIN MEðAL BYLTINGANNA