Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 44
43
útgáfu var afnám ríkisvaldsins langtíma ferli í umsjón flokksins, og af því
leiddi annars vegar að hann tók sér vald yfir ríkisstofnunum, hins vegar
að við þær var bætt ímyndunum um æðri sögulega innsýn og stjórnhæfi,
innbyggðum í flokksmódel Leníns en ekki fyllilega virkum fyrr en ein-
okunarvaldi var náð. Þessi síðarnefndi þáttur truflaði þá rökvísi, sem Max
Weber taldi (að vísu í ýktum mæli) einkenna ríki byggt á skrifræði; það
er ein ástæðan til þess að síðarnefnda hugtakið nær ekki langt til að lýsa
Sovétríkjunum. Á hástigi stalínismans náði truflunin svo langt að gera varð
flokks- og ríkisleiðtogann að spámanni, og fela honum altækt og óskorað
túlkunarvald.
Önnur þverstæða, nátengd hinni fyrstu, snýst um alþjóðahyggju bolsé-
víka og stórríkið sem þeir endurreistu. Það verður vart dregið í efa að
von um svonefnda heimsbyltingu (nánar til tekið evrópska byltingu) var
forsenda valdatökunnar í Pétursborg. Í reynd tóku bolsévíkar við sundr-
uðu stórríki og tilheyrandi verkefnum endursameiningar, sem tókst að
norðvesturhorninu undanskildu. Alþjóðahyggjan gerði þeim auðveldara
að byggja stórríkið upp á nýjum grundvelli, sem samband þjóðríkisígilda.
Þetta fyrirkomulag gerði það að verkum að innan Sovétríkjanna gátu átt
sér stað þjóðmyndunarferli (sumpart áframhaldandi, sumpart nýbyrjuð);
þau reyndust afdrifarík þegar kom að pólitískri krísu af allt öðru tagi en
1917. Á hinn bóginn voru kröfur og sjónarmið stórríkisins alltaf sett í
forgang, og girt fyrir að þjóðleg eða staðbundin stefnumál vikju frá þeim
ramma (fjöldamorð Stalíns á fjórða áratugnum komu sérlega hart niður á
pólitískum og menningarlegum elítum sambandslýðveld anna). Forræði
stórríkisins tók að sama skapi til alþjóðahreyfingar sem í orði kveðnu átti
að halda uppi baráttunni fyrir heimsbyltingu; og þegar Sovétríkin náðu
tökum á stærra áhrifasvæði, var í fyrstu reynt að stjórna því sem næst varð
komizt innanríkisaðferðum án formlegrar innlimunar. Síðari leiðrétt-
ingar voru takmarkaðar, tilviljanakenndar og mismunandi eftir löndum.
Alvarlegri vandamál komu upp þegar annað stórríki, eldra og ríkara að
menningarerfðum, var endurreist eftir byltingarleiðum. Sigur kínverskra
kommúnista árið 1949 batt enda á tilkall Sovétríkjanna til sögulegra sér-
réttinda, þótt afleiðingarnar yrðu ekki ljósar fyrr en allnokkru síðar.
Þriðja þverstæðan, og sú síðasta sem hér verður nefnd, felst í sambúð og
samkeppni Sovétríkjanna við heimskapítalismann. Þjóðfélagsmódel sem
átti að bera kapítalismann ofurliði og tryggja framfarir út fyrir sögulegan
sjónhring hans var dæmt til langtíma togstreitu við kapítalískt umhverfi;
BYLTINGIN MEðAL BYLTINGANNA