Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 48
47
Ragnheiður Kristjánsdóttir
Rússnesk bylting á Íslandi?
Um innflutning kommúnismans, jarðveginn
og pólitískt þýðingastarf
Þótt Ísland væri nokkuð langt í burtu, og mörgum fyndist það einangrað,
fór ekki framhjá þeim sem fylgdust með heimsfréttum að rússneska bylt-
ingin var stór atburður sem gat haft áhrif á Íslandi. Fréttirnar af valdarán-
inu í Pétursborg og borgarastyrjöldinni sem fylgdi í kjölfarið bárust jafn-
óðum með símskeytum frá útlöndum.1 Smám saman hófst svo umræða
um hvað byltingin gæti falið í sér.2 Sumir voru forvitnir og spenntir, aðrir
lýstu yfir áhyggjum. Í dramatískri grein í Morgunblaðinu sumarið 1919 var
þannig sagt að daglega bærust til landsins „ægilegustu fregnir“ um nýjar
byltingar, fjölmennari uppþot og sífellt víðtækari og dýpri áhrif þessara
æsinga. Syndikalismi, bolsévismi, og aðrir „eiturgígir mannkynsins“ skytu
nú yfir heiminn þvílíkum eldhryðjum að hætta væri á að allt yrði lagt í
rústir og auðn. Bolsévisminn hefði breiðst út eins og logi yfir akur, fyllt
loftið „eitri og ástríðum“ og nú væri hann kominn svo nærri Íslandi að
„frændur vorir Norðmenn“ hefðu sogast inn í þessa iðu. Allt þjóðlíf þeirra
léki á reiðiskjálfi.
1 Fyrstu fréttir virðast hafa komið á prent í Vísi 8. nóvember, en þar er birt símskeyti
sem barst frá Kaupmannahöfn 7. nóvember. „Alvarlegar skærur milli rússnesku
stjórnarinnar og Maximalista [bolsévika]. Stjórnarherinn hefir Petrograd á valdi
sínu.“ Smám saman bárust ítarlegri fréttir, t.d.: „Borgarastyrjöld í Rússlandi. Lenín
einvaldur“, Morgunblaðið 10. nóvember 1917.
2 Árið 1918 skrifaði Þorleifur H. Bjarnason grein í Skírni, þar sem hann fjallaði um
aðdragandann að falli keisaradæmisins í Rússlandi, en ekkert um byltingu bolsévika:
„Stjórnarbyltingin mikla í Rússlandi“, Skírnir 92/1918, bls. 125–154. Árið 1919
birtist í Iðunni þýddur útdráttur úr grein eftir Georg Brandes úr danska tímaritinu
Tilskueren frá mars þetta sama ár: „Um ástandið í Rússlandi“, Iðunn 5:1–2/1919,
bls. 121–126. Ári síðar birtist svo grein Snæbjörns Jónssonar „Bolsjevismi eða lýð-
stjórnarhreyfingin á Rússlandi“, Eimreiðin 26:1–2/1920, bls. 28–52. Jákvæð ummæli
Snæbjarnar um bolsévika urðu til þess að Páll Stefánsson heildsali brást ókvæða
við og úr varð dómsmál. Snæbjörn höfðaði og vann meiðyrðamál gegn Páli. Sjá:
„Dómur“, Alþýðublaðið 28. júní 1921.
Ritið 3/2017, bls. 47–68