Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 61
60
púla í kolum eða saltfiski. Þeir yngri yrðu látnir vinna á skrifstofu, við að
vigta rúsínur, púðursykur og grænsápu, en þeir sem væru komnir á efri ár
yrðu að mestu látnir í friði. Vitaskuld yrði auður þeirra gerður upptækur,
en þeim yrði fengin til framfærslu þreföld sú upphæð sem verkamönnum
hafði verið greidd fyrir byltingu. Þessi mannúðlega meðferð yrði þó háð
því skilyrði að þeir efndu ekki til samsæris gegn alþýðuvaldinu. Þess háttar
tilburðum yrði mætt af fyllstu hörku, þeir yrðu fluttir til Grímseyjar og líf-
eyririnn skorinn niður í laun venjulegs verkamanns.
Vísun í skjögur á hlöðukálfum og hótanir um að flytja ósamvinnuþýða
atvinnurekendur og embættismenn út í Grímsey undirstrika ólíkindalætin
sem einkenna viðtalið. Þó er hér gerð tilraun til að heimfæra byltinguna
til Íslands, en slík heimfæring var eitt meginverkefni þeirra sem stóðu
að uppbyggingu kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi. Segja má að sú
vinna hafi hafist fyrir alvöru með stofnun Félags ungra kommúnista árið
1922 og útgáfu þess á Ávarpi til alþýðu sem áður var nefnt. Félagið var
aðili að Alþjóðasambandi ungkommúnista og þar með voru Íslendingar
komnir í formlegt samband við alþjóðahreyfingu kommúnista. Samskiptin
við Komintern voru reyndar stopul framan af, en árið 1924 var í fyrsta
sinn samþykkt ályktun um Ísland og sama ár var Norðmaðurinn Olaf
Vegheim sendur til Íslands til að leiðbeina íslensku kommúnistunum.46
Hjá Komintern gátu kommúnistar gengið að nokkuð fastmótaðri stjórn-
málastefnu og stjórnmálaorðræðu. Þá fylgdu með í kaupunum skýrar leið-
beiningar um hvernig ætti að skipuleggja og heyja baráttuna og auk þess
margs konar samráð við fulltrúa Komintern í Moskvu.
Eins og kunnugt er voru íslensku kommúnistarnir ósammála um það
á þessum árum hversu langt ætti að ganga í að laga starfið að íslenskum
stjórnmálaveruleika. Annars vegar voru þeir sem hugsuðu fyrst og fremst
um kommúnismann í hnattrænu samhengi, sem þverþjóðlega byltingu
sem fól í sér fyrirheit um betri heim, þar á meðal á Íslandi. Hins vegar
voru þeir sem lögðu megin áherslu á að leita leiða til að byggja upp öfluga
fjöldahreyfingu á Íslandi.47
46 Sjá t.d.: Jón Ólafsson, Kæru félagar, bls. 22–24; Brynjólfur Bjarnason. Pólitísk ævisaga.
Viðtöl Einars Ólafssonar ásamt inngangi, (Reykjavík: Mál og menning, 1989), bls.
81–82.
47 Um þetta má lesa í endurminningum og frásögnum kommúnistanna sjálfra sem og
í flestum þeim ritum sem fjalla um upphafsár kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi.
Þar eru þeir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason iðulega nefndir sem helstu
fulltrúar þessara gagnstæðu sjónarmiða.
RagnheiðuR KRistJÁnsdÓttiR