Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 63
62
Í þessu sama bréfi segist Einar hafa mælt með því við Brynjólf og Ársæl
að þeir reyndu að taka „nationalismann“ í sína þjónustu á „kommúnísk-
um grundvelli“.50 Stuttu seinna birtist svo grein í Rauða fánanum þar sem
Einar gerir tilraunir í þá átt, meðal annars með því að fullyrða að þjóðern-
isstefna „borgaranna“ þjónaði þeirra sérhagsmunum, en ekki hagsmunum
allrar þjóðarinnar.51 Birting greinarinnar hafði reyndar vafist fyrir aðstand-
endum Rauða fánans eftir því sem fram kemur í bréfi sem Ársæll skrifaði
Einari. Hér má aftur sjá dæmi um vangaveltur um mikilvægi þess að standa
sem best að yfirfærslu kommúnismans í íslenskt samhengi:
Eins og þú sérð kemur grein þín ekki í þessu blaði og liggur þetta
til þess: Hún er skrifuð með það fyrir augum að slá á nationala
strengi hjá almenningi. Nú ber ekki að taka þetta svo, að ég álíti
slíkt óhæfu, þvert á móti. [Vilhjálmur S. Vilhjálmsson] vildi endi-
lega taka hana í blaðið, en Hendrik Ottósson var á móti, taldi hana
aðeins æsingagrein. Ég ætlaði að setja hana í blaðið, en hætti við
það á síðustu stundu, og nú skal ég segja þér af hverju. Við verðum
að agitera systematist [svo]; ef þessi grein kemur verða fleiri slíkar
að koma á eftir; og annað; við verðum að hafa fremur hægt um
okkar internationalisma, þó auðvitað séum við ekki neyddir til að
ganga frá honum. Fyrir mitt leyti tel ég sjálfsagt að taka einmitt þá
aðferð að agitera á nationölum basis, en vildi aðeins ekki leggja út í
það upp á eigin reikning að svo komnu máli. Ég býst við að Billinn
[Brynjólfur] sé því með öllu samþykkur, og sennilega kemur greinin
í næsta blaði hvort sem hann þá verður kominn heim eða ekki.52
Þótt viðleitni Einars til að spyrða saman kommúnismann og íslenska þjóð-
erniskennd hafi staðið í sumum félögum hans, í það minnsta til að byrja
með, er ljóst að hann lagði sig eftir því að móta stefnu sem var strangt
tekið í samræmi við samþykkt Komintern um þjóðfrelsishreyfingar. Þá
benda heimildir til þess að þegar komið var að stofnun Kommúnistaflokks
á Íslandi hafi verið samið um það við fulltrúa Komintern í Moskvu að
50 Lbs. Gögn Stefáns Pjeturssonar. Bréf frá Einari Olgeirssyni, Akureyri 3. júní
1924.
51 „Kommúnisti“, „Þjóðrækni“, Rauði fáninn júlí 1924, bls. 4. Sjá jfr. Lbs. Gögn Einars
Olgeirssonar. Bréf frá Ársæli Sigurðssyni, Reykjavík 29. júní 1924. Þar kemur fram
að Einar var höfundur greinarinnar.
52 Lbs. Gögn Einars Olgeirssonar. Bréf frá Ársæli Sigurðssyni, Reykjavík 29. júní
1924.
RagnheiðuR KRistJÁnsdÓttiR