Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 64
63
barátta flokksins fyrir kommúnískri byltingu væri skilgreind sem liður
í þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga. Og þegar upp var staðið höfðu íslenskir
kommúnistar mótað nýja útgáfu íslenskrar þjóðernisorðræðu sem gerði
ráð fyrir að fátækt launafólk í þéttbýli gegndi lykilhlutverki í sjálfstæð-
isbaráttu Íslendinga. Með því að fela íslensku verkafólki forystu í frels-
isbaráttu íslensku þjóðarinnar höfðu þeir sett þá lægst settu, „úrhrökin“, í
öndvegi.53
Þessi samtvinnun kommúnismans og íslenskrar þjóðernisorðræðu er
líklega skýrasta og áhrifamesta dæmið um hvernig hægt var að láta arf-
leifð rússnesku byltingarinnar höfða til sjálfsmyndar þeirra Íslendinga sem
fannst þeir standa utanveltu í íslensku samfélagi. Þess vegna, meðal annars,
hefur sá þáttur í starfi íslenskrar kommúnistahreyfingar fengið töluvert
rúm í fræðilegri umræðu undanfarinna ára. En dæmin eru fleiri. Þannig má
gera ráð fyrir að byltingarorðræðan hafi höfðað á annan hátt til íslenskra
mennta- og listamanna,54 og á enn annan til bænda sem voru skilgreindir
sem sérstakur markhópur í stjórnmálastarfi íslenskra kommúnista.55 Þá er
ljóst, eins og áður sagði, að byltingarorðræðan hlaut að höfða til kvenna
með öðrum hætti en til karla og þótt enn skorti ítarlegri rannsóknir skulu
hér að lokum tilgreind nokkur dæmi um hvernig staðið var að því að færa
kommúnismann til íslenskra kvenna.
Líklega er það ekki fyrr en komið er fram á seinni hluta þriðja áratugar-
ins, og kommúnistahreyfingin á Íslandi aðeins komin á legg, að farið er að
gera markvissar tilraunir með hvernig byltingarboðskapurinn gæti höfðað
til kvenna. Skömmu eftir að Einar Olgeirsson hafði tekið við tímaritinu
Rétti árið 1926 birtist þar smásagan Örbirgð eftir Kristínu Sigfúsdóttur.
Söguhetjan er hreppsómaginn Sveitar-Gudda sem lengst af hafði verið
„notuð til að gegna skarnverkum fyrir sama sem ekkert kaup.“ Í upphafi
sögunnar er Gudda mætt til kirkju, seint og um síðir og hún stingur í stúf á
þessum stað sem annars hafði boðað til sín söfnuðinn undir þeim formerkj-
um að allir væru jafnir. Hún er „svo tötralega búin“ og allt útlit hennar í
53 Sbr. Ragnheiður Kristjánsdóttir, Nýtt fólk, bls. 205–217, 325–33 og víðar.
54 Eins og komið hefur fram í því sem skrifað hefur verið um Sovétaðdáun Halldórs
Laxness, Þórbergs Þórðarsonar og fleiri menntamanna. Hér má t.d. nefna tvö
nýleg rit Halldórs Guðmundssonar: Halldór Laxness. Ævisaga, (Reykjavík: JPV,
2004) og Skáldalíf. Ofvitinn úr Suðursveit og Skáldið á Skriðuklaustri, (Reykjavík:
JPV, 2006).
55 Sbr. t.d. greinaflokk Brynjólfs Bjarnasonar, „Kommúnisminn og bændur“ sem
birtist í Rétti 1926–1928 og Einar Olgeirsson, „Erindi Bolshevismans til bænda“,
Réttur 15:1/1930, bls. 48–63.
RúSSNESK BYLTING Á ÍSLANDI?