Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 68
67
En þá skipti máli að taka mið af sjálfsmyndum og aðstæðum ólíkra
hópa. Þau dæmi sem hér hafa verið tilfærð úr einkabréfum íslenskra
kommúnista og stjórnmálaorðræðu hreyfingarinnar benda til þess að þau
hafi almennt – og þrátt fyrir nokkurn áherslumun ólíkra hópa innan hreyf-
ingarinnar – lagt sig eftir því að finna leiðir til að tengja boðskap alþjóð-
legrar kommúnistahreyfingar við íslenskan veruleika. Enn skortir frekari
rannsóknir á því hvernig kommúnisminn höfðaði til ólíkra hópa í íslensku
samfélagi – til að mynda kvenna. Niðurstaðan hlýtur engu að síður að vera
sú að íslenskir kommúnistar hafi lagt töluverða vinnu í að þýða og staðfæra
alþjóðlegan kommúnisma yfir á íslensku. Þar höfum við eina skýringu á
sterkri stöðu íslenskra kommúnista og síðar sósíalista á Íslandi.
ú T D R Á T T U R
Rússnesk bylting á Íslandi?
Um innflutning kommúnismans, jarðveginn
og pólitískt þýðingastarf
Byltingin í Rússlandi og eftirmáli hennar, uppbygging Sovétríkjanna og alþjóðlegrar
kommúnistahreyfingar, var hnattrænn stjórnmálaatburður. Sú pólitíska hugmynda-
fræði sem þar lá til grundvallar, táknmyndir byltingarinnar og einstakir atburðir,
voru frá upphafi samofin stjórnmálalífi víða annars staðar og mynduðu flókinn vef
sem náði um allan heim. Þar tvinnuðust saman þverþjóðlegar stjórnmálahugmyndir
og framkvæmd annars vegar, en hefðir sem áttu sér rætur í rússneska keisaradæminu
hins vegar. Við þetta blönduðust svo þær hugmyndir, hefðir og aðstæður sem fyrir
voru á viðtökustaðnum. Áhrifin gátu því í stuttu máli verið margvísleg og segja má
að á hverjum stað fyrir sig hafi orðið til einstakur sambræðingur. Það er þessi sam-
bræðsla menningarheima sem er til skoðunar hér, þ.e.a.s. gagnvirk áhrif rússnesku
byltingarinnar og þverþjóðlegrar kommúnistahreyfingar annars vegar en íslenskra
aðstæðna og stjórnmálamenningar hins vegar. Hvernig bárust áhrif rússnesku bylt-
ingarinnar til Íslands, að hvaða marki var jarðvegur á Íslandi fyrir þær hugmyndir
og baráttuaðferðir sem hún fól í sér, hvernig tvinnuðust þær saman við það sem
fyrir var á Íslandi, og hvernig höfðaði byltingarboðskapurinn til ólíkra hópa, þar á
meðal kvenna? Ein niðurstaða greinarinnar er sú að íslenskir kommúnistar hafi lagt
töluverða vinnu í að þýða og staðfæra alþjóðlegan kommúnisma yfir á íslensku og að
þar sé að finna eina skýringu á sterkri stöðu íslenskra kommúnista og síðar sósíalista
á Íslandi.
Lykilorð: Rússneska byltingin, kommúnistahreyfingin á Íslandi, menningarleg
yfirfærsla
RúSSNESK BYLTING Á ÍSLANDI?