Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 73
72
Í framleiðslustörfum sínum í þjóðfélaginu gangast menn undir
ákveðnar og óhjákvæmilegar afstæður óháðar vilja sínum, fram-
leiðsluafstæður samsvarandi því þrepi þróunar, sem framleiðslu-
öflin standa á. Þessar framleiðsluafstæður mynda í heild hagkerfi
þjóðfélagsins, þann raunverulega grundvöll sem lagaleg og stjórn-
málaleg yfirbygging hvílir á, og viss form félagslegrar vitundar svara
til. Framleiðsluháttur hins efnalega lífs skilorðsbindur félagslegt,
stjórnmálalegt og andlegt lífsferli yfirleitt. Það er ekki vitund manna
sem skilorðsbindur veru þeirra, heldur öfugt – félagsleg vera sem
skilorðsbindur vitund. Á vissu stigi þróunar sinnar komast efnaleg
framleiðsluöfl þjóðfélagsins í stríð við ríkjandi framleiðsluafstæður,
ellegar – með lögfræðilegu orðalagi – við þau eignarform er verið
höfðu rammi framleiðsluaflanna. Þau breytast úr þróunarformum
framleiðsluaflanna í fjötra þeirra. Þá hefst skeið þjóðfélagsbyltingar.
Í kjölfar breytingar á efnahagsgrundvellinum hlýtur öll hin volduga
yfirbygging fyrr eða síðar að kollsteypast.6
Þetta er kjarni hinnar efnislegu söguskoðunar í stuttu máli: Efnahagslífið
er grundvöllurinn en hugmyndir og stjórnmál yfirbygging sem tekur mið
af grundvellinum. En við þessa skilgreiningu bætti Marx hugmyndum um
það hvernig samfélagsþróun á Vesturlöndum hefði orðið í ljósi hinnar
efnislegu söguskoðunar:
Líta má svo á, að í stórum dráttum hafi framleiðsluhættir Asíu, forn-
aldar, lénsveldis miðalda og hins borgaralega nútíma verið, hver
fyrir sig, framfaraskeið hvað snertir efnahagslega mótun þjóðfélags-
ins. Borgaralegar framleiðsluafstæður eru síðasta mótsagnakennda
form félagslegs framleiðsluferlis, mótsagnakennt ekki sem pers-
ónulegar erjur, heldur sem afleiðing af ólíkum, félagslegum lífsskil-
yrðum einstaklinganna. En um leið skapa þau framleiðsluöfl, sem
þróast í skauti borgaralegs þjóðfélags, efnaleg skilyrði fyrir því að
andstæðurnar upphefjist. Forsögu mannlegs þjóðfélags er því lokið
með þessari þjóðfélagsmyndun.7
Sýn Marx á framþróun mannkyns er því lituð af framfarahyggju, á heildina
litið taki heimurinn framförum í efnahagslegu tilliti. Hann taldi auðsýnt
6 Karl Marx og Friedrich Engels, Úrvalsrit í tveimur bindum, (Reykjavík: Heims-
kringla, 1968), I. bindi, bls. 240.
7 Sama rit, bls. 241.
SVERRIR JAKOBSSON