Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 76
75
Íslandssögunnar þar sem ris og hnig þjóðarinnar tengdust sjálfstæði henn-
ar. Þannig var litið á aldirnar fyrir 1262 sem hátind en síðan hefði tekið við
langt hnignunarskeið uns þjóðin „vaknaði“ til vitundar um nauðsyn sjálf-
stæðis á 19. öld.14 Á hinn bóginn var einnig litið á Íslandssöguna sem skeið
framþróunar og þá einkum í trúmálum. Skref hefði verið tekið fram á við
með kristnitökunni í kringum árið 1000 og svo aftur um miðja 16. öld
þegar hinn evangelísk-lúterski siður varð ríkjandi.15 Flestir sagnfræðingar
og áhugamenn sem fjölluðu um Íslandssögu á 19. öld og á fyrstu áratugum
20. aldar virðast hafa aðhyllst báðar þessar hugmyndir enda þótt ekki væri
röklegt samhengi á milli þeirra.
Á hinn bóginn eru fá dæmi um að íslenskir sagnfræðingar hafi lýst hug-
myndum sínum um orsakir sögulegrar framvindu eða þróun samfélaga í
breiðu samhengi eða reynt að greina vægi hins huglæga og efnislega þáttar
í slíkri þróun.16 Enda þótt greina megi tiltekna ríkjandi söguskoðun var
hún ekki viðurkennd sem slík, heldur litið á hana sem raunsanna lýsingu á
þróun sem sprytti af staðreyndum, óháð sjónarhorni eða forsendum rann-
sakandans.
Innreið hinnar efnislegu söguskoðunar á Íslandi
Fimmtudaginn 1. apríl 1926 féllu bíósýningar niður í Nýja bíói, enda var
þá skírdagur. Þess í stað hélt Brynjólfur Bjarnason fyrirlestur um „hina
efnislegu söguskoðun“ á vegum stúdentafræðslunnar. Var fyrirlesturinn
haldinn kl. 2 og miðar seldir á 50 aura stykkið. Brynjólfur hafði stundað
nám í náttúrufræðum og heimspeki í Kaupmannahöfn og Berlín og var þá
þegar landskunnur þar sem hann hafði ári áður verið dæmdur í 30 daga
skilorðsbundið fangelsi fyrir „guðlast“.17
Í Rétti 1930 birtist svo grein eftir Brynjólf sem höfundur segir „að
mestu samhljóða“ fyrirlestrinum sem hann flutti í Nýja bíói og þar sem
hann kynnir það sem hann kallaði „hina efnalegu söguskoðun“. Hann tefl-
ir henni fram gegn viðhorfum sem hann lýsir svo:
14 Sama rit, bls. 81–89.
15 Sama rit, bls. 95–96.
16 Loftur Guttormsson telur að áhugi á slíkum álitamálum hafi farið vaxandi á öðrum
fjórðungi 20. aldar (þ.e. 1925–1950), þ.e. í kjölfar þess tímabils sem hér er til um-
fjöllunar; Loftur Guttormsson, „Rannsóknir í félagssögu 19. og 20. aldar“, Saga
38 (2000), bls. 135–60, sjá bls. 136–37.
17 Um þessi mál sjá t.d. Einar Ólafsson, „Brynjólfur Bjarnason?“, Andvari 122 (1996),
11–61, einkum bls. 31.
NÝIR SÖGUÞRÆðIR