Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 77
76
Er það ekki einmitt vilji mannanna, sem skapar mannkynssöguna?
Og vilji hins sterkasta, einstaklinga, þjóða eða stjetta, ræður úrslit-
um. En viljinn hefur frjálst val. Hvernig hyggist þjer þá að geta sagt
nokkuð fyrir um þróun sögunnar? Og hvernig getur sagan verið
lögmálum bundin?18
Þessar ímynduðu mótbárur Brynjólfs byggjast ekki einungis á andstöðu
við hugmyndina um efnislegan grundvöll þróunar heldur á því að hvers
konar sögulegum lögmálum er hafnað; hvort sem þau hvíla á hugmyndum
eða efnahagslegum grundvelli. Brynjólfur rekur þær til hugmyndarinnar
um „hið skilyrðislausa viljafrelsi kristindómsins. Vilji mannsins er engum
lögum bundinn, hann er orsakalaus“. Hann telur að þar með sé „orsaka-
lögmálinu neitað og grundvellinum kipt undan vísindunum“. Hann lýsir
ríkjandi söguskoðun sem „frásögn um samtök og fyrirtæki mannlegs vilja“
og telur að rannsóknir á sögu á slíkum forsendum geti „einungis orðið til
gamans, en ekki til skilningsauka“. Honum finnst augljóst „að sú stjett,
sem er á máli þróunarinnar, sem krefst byltinga og breytinga á núver-
andi ástandi, sje andvíg þessari skoðun, en hin, sem hefir hag af kyrstöð-
unni, verji hana“. Hann lítur því svo á að hin efnislega söguskoðun sé
„í samræmi við alla, sem standa raunverulega á grundvelli vísindanna í
skoðunum sínum“ en meginrökin gegn henni sé kenning kristindómsins
um frjálsan vilja. Þó áréttar Brynjólfur að frjáls vilji sé til „að því leyti að
maðurinn getur valið og ber ábyrgð á vali sínu, en hann er ekki orsakalaus.
Hann er lögmálum bundinn. Mennirnir velja eða ákvarða þetta eða hitt
af einhverri ástæðu, en ekki ástæðulausu“.19 Af þessu má sjá að Brynjólfur
telur að hugmyndin um skilyrðislaust viljafrelsi sé í raun höfnun á orsaka-
skýringum.20
Brynjólfur fjallar svo almennt um söguskoðun og telur að sú mann-
kynssaga sem kennd sé í skóla sé
í fullu samræmi við hinn borgaralega skilning á sögunni. … Einatt
eru langir kaflar sögunnar ekki annað en æfisögur þjóðhöfðingja
og mikilmenna og lýsingar á hæfileikum þeirra til sálar og líkama.
18 Brynjólfur Bjarnason, „Hin efnalega söguskoðun“, bls. 3.
19 Sama rit, bls. 4.
20 Brynjólfur hafði hins vegar sjálfur töluvert flóknari skoðanir á viljafrelsi en hægt
er að endursegja í þessu samhengi, en hann ritaði um það síðar í heimspekiritum
sínum; sjá t.d. Eyjólfur Kjalar Emilsson, „Brynjólfur Bjarnason um frelsi viljans“,
Hugur 10–11 (1998–1999), 136–54.
SVERRIR JAKOBSSON