Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 78
77
Og þetta er engin tilviljun. Það er einmitt þetta, sem máli skiftir frá
borgaralegu sjónarmiði. Það eru einstakir menn, sem eru hin breyt-
andi öfl sögunnar, sem marka tímamótin. Þess vegna verðum vjer
fyrst og fremst að skilja alt sálarlíf þeirra, skapgerð og vitsmuni.21
Hann telur að þeir sem samt sem áður sjái eitthvert samhengi í sögunni
„sem er æðra mannlegum dutlungum“, eins og Hegel, átti sig á að sagan sé
„ekki annað en þróunarsaga mannlegs samlífs. Ekkert ástand er varanlegt,
en hefir í sjer fólgið upplausn sína, sem um leið er vísirinn til hins nýja“.22
Hér telur Brynjólfur komið að kostum hinnar efnislegu söguskoðunar:
Ekkert þróunarstig verður skilið til hlýtar, nema með því að rann-
saka rætur þess, sem eru hvorki meira nje minna en öll undanfarandi
saga. Ekkert einstakt fyrirbæri þjóðfjelagsins verður skilið til fulln-
ustu nema í sambandi við skipulagið í heild sinni.23
Brynjólfur lýsir því hinni efnislegu söguskoðun án þess að grípa til smætt-
arhyggju. Hann lítur á hana sem einhvers konar heildarsögu (fr. histoire
totale) eins og samtíðarmaður Brynjólfs, franski sagnfræðingurinn Fernand
Braudel, boðaði síðar.24 Hann bregst við gagnrýni á að hin efnislega sögu-
skoðun skýri ekki ýmsa sögunnar stórviðburði með því að halda því fram
að einstakir atburðir „sjeu ekki hinn rauði þráður sögunnar, heldur hin
stöðuga jafnvægistruflun framleiðsluaflanna“.25
Hér er því boðuð mannkynssaga með allt annan söguþráð en Íslendingar
höfðu lesið fram að þessu, og m.a. kynnst í yfirlitsritum Páls Melsteð, en
þau snerust fyrst og fremst um stórviðburði af því tagi sem Brynjólfur
hafnar. Til dæmis segir Páll Melsteð, eftir langa lýsingu á ævi Napóleons
sem rakin er allt til andlát hans:
Þannig lauk æfi þessa merkis manns, er verið hefir einn hinn vitrasti
meðal mannkynsins, og svo framkvæmdar mikill að hann breytti
ástandi og kjörum því nær allra þjóða í Norðurálfunni, en orðstýr
hans er floginn svo lángt sem lønd eru bygð.26
21 Brynjólfur Bjarnason, „Hin efnalega söguskoðun“, bls. 5.
22 Sama rit, bls. 7–8.
23 Sama rit, bls. 9.
24 Sjá t.d. Fernand Braudel, „Histoire et Sciences sociales: La longue durée“, Annales.
Économies, Sociétés, Civilisations 13:4 (1958), 725–753.
25 Brynjólfur Bjarnason, „Hin efnalega söguskoðun“, bls. 11.
26 Páll Melsteð, Ágrip af merkisatburðum mannkynssögunnar (Viðeyjarklaustri: Páll
Melsteð, 1844), bls. 323.
NÝIR SÖGUÞRÆðIR