Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Side 83
82
stoðin undir lífsskoðunum kommúnista“ og eyðir því drjúgum hluta af
umfjöllun sinni um byltinguna í Rússlandi í að ræða hana.47
Samkvæmt Árna fjallar höfuðkenning Marx um það „hvert sé hið
knýjandi og drottnandi afl allrar framsóknar í mannlegum félagsskap. Og
svarið var: Framleiðsluhættirnir, atvinnuskipulagið og sú stéttabarátta, sem
af því sprettur“. Árni viðurkennir að þetta svar hafi „mótað stefnu og bar-
áttu-aðferð verkalýðsins og haft mikil áhrif á sögulegar rannsóknir, þó að
fáir eða engir sagnfræðingar hafi getað aðhyllzt kenningar Marx að fullu
og öllu“.48
Árni lýsir svo rækilega því sem hann kallar „hinn materialistiska sögu-
skilning“ og telur hann hafa haft „afar-mikil áhrif á sagnritun álfunnar“.
Hann telur líka nokkur rök fyrir því:
Þó að undarlegt megi virðast hafði sagnaritunin frá upphafi vega
fram á 19. öld gengið næstum því steinþegjandi fram hjá öllum hag-
fræðilegum efnum. Sagnaritarar liðinna alda komust í raun og veru
aldrei inn úr yzta borði sögunnar, enda var aðal-viðfangsefni þeirra
að segja frá viðburðum á sviði stjórnmála og hernaðar. En rætur allra
viðburða röktu þeir til einstakra manna, enda hvíldi öll sagnarit-
un þeirra á þeim skilningi, – hvort sem þeir gerðu sjálfum sér það
ljóst eða ekki, – að frjáls og óháður einstaklings vilji væri frumkvöð-
ull („primus motor“) alls, sem gerzt hefði í mannheimi frá því að
Adam og Eva drýgðu hina fyrstu synd af frjálsum vilja. Að vísu brá
fyrir eins og ljósrák af æðra skilningi hjá einstökum höfuðsnilling-
um meðal sagnaritaranna bæði fyr og síðar, en þó lá öll sagnaritun
að mestu leyti í hinum forna farvegi fram á 19. öld. Þá verður hún
fyrir margvíslegum áhrifum af heimspeki og náttúruvísindum, og þá
lækkar einstaklingurinn nokkuð í tigninni, er sagnariturum tekur að
skiljast, að hann er ekki einangraður einstæðingur, heldur hlekkur
í festi, háður og mótaður af öflum og atvikum, sem hann ræður
ekki yfir sjálfur. Og þá áttuðu menn sig fyrst á því, sem oss virð-
ist nú svo einfalt og auðsætt mál, að baráttan fyrir daglegu brauði
væru höfuðþáttur mannkynssögunnar og að saga þeirrar baráttu
myndi margfalt lærdómsríkari en sú saga, sem þangað til hafði verið
rituð.49
47 Sama rit, bls. 66.
48 Sama rit, bls. 58.
49 Sama rit, bls. 64–65.
SVERRIR JAKOBSSON