Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 90
89
Ekki má gleyma því að þátttaka Rússlands í fyrri heimsstyrjöldinni hafði
tekið gríðarmikinn toll af hinum almenna borgara og eftir byltingarnar árið
1917 tók við áralöng blóðug borgarastyrjöld. Hin nýja ráðstjórn bolsévika
lagði því frá upphafi mikla áherslu á að uppfræða almenna borgara um rétt
og viðeigandi viðhorf gagnvart byltingunni. Þar skiptu þjáningar óbreyttra
borgaranna litlu máli: markmiðið var að skapa og viðhalda goðsögn og
sameiginlegum minningum um viðburð sem réttlætti einræði bolsévika
og síðar Sovétríkin sjálf. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að til
viðbótar við íburðarmikil hátíðahöld og umfangsmiklar hersýningar beitti
hið unga ríki frá upphafi ritskoðun og kúgun til að útiloka viðhorf er ekki
samræmdust grundvallargoðsögninni um októberbyltinguna.5
Utan Sovétríkjanna voru frá upphafi stórir hópar bæði útflytjenda frá
Rússlandi, fræðimanna og annarra sem höfnuðu lögmæti byltingarinnar.
En þeir voru einnig margir sem heilluðust af hugsjónum bolsévika og
byltingarinnar og meðal þeirra voru þó nokkrir eldhugar sem vildu veg
byltingarinnar sem mestan og breiða áhrif hennar út sem víðast.6 Framan
af gátu sósíalistar því sameinast í hátíðahöldum er fögnuðu gildum, mark-
miðum og afrekum Sovétríkjanna en erfitt reyndist að halda í margan
stuðningsmanninn á árum samfylkingarstefnunnar, að ekki sé talað um árin
1939–41, frá griðasáttmála Hitlers og Stalíns og í gegnum vetrarstríðið í
Finnlandi. „Finnagaldurinn,“ eða „lygabrjálæðið mikla“ eins og Halldór
Kiljan Laxness orðaði það,7 reyndist íslenskum sósíalistum sérstaklega erf-
iður tími en þó voru haldin samkvæmi að venju hinn 7. nóvember 1940
enda mikilvægt að þétta raðirnar í mótlætinu.8 Viðhorf til Sovétríkjanna
breyttust svo í takt við framgöngu þeirra í síðari heimsstyrjöld en að henni
lokinni voru Sovétríkin óumdeilanlega annað stórvelda heimsins og fram
til ársins 1956 var mikil samstaða meðal sósíalista um allan heim, og auð-
velt að halda gildum byltingarinnar á lofti á Íslandi sem annarsstaðar.
enn ræddar, t.d. Rex A. Wade, The Russian Revolution, 1917, 3. útgáfa (Cambridge:
Cambridge University Press, 2017); Orlando Figes, A People’s Tragedy: The Russian
Revolution, 1891–1924, 100th Anniversary Edition (New York: Random House,
2017); Sean McMeekin, The Russian Revolution: A New History (London: Profile
Books, 2017) og Mark D. Steinberg, The Russian Revolution, 1905–1921 (Oxford:
Oxford University Press, 2017).
5 Frederick C. Corney, Telling October: Memory and the Making of the Bolshevik
Revolution (Ithaca og London: Cornell University Press, 2004), bls. 1–11.
6 Sama heimild. Sjá hér líka t.d. Paul Hollander, Political Pilgrims: Western Intellectuals
in Search of the Good Society (New Brunswick, N.J: Transaction Publishers, 1998).
7 Halldór Kiljan Laxness, Vettvangur dagsins (Reykjavík, 1942), bls. 139.
8 Þjóðviljinn, 7. nóvember 1940, bls. 1.
„LÍTILMAGNANS MORGUNROðI?“