Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 94
93
þau hátíðahöld yfirskriftina „hátíðahöld reykvískrar alþýðu 7. nóvember“
og tekið var fram að það væri „[v]issara ... fyrir þá, sem ætla að sækja þessar
skemmtanir að tryggja sér aðgöngumiða í tíma.“19 Dagskrá viðburðanna
tveggja hinn 7. nóvember 1945 sýnir að það var að miklu leyti sama fólk-
ið sem þar kom fram, bæði sovéskir listamenn og íslenskir ræðumenn.
Skipuleggjendum hefur greinilega þótt áhugi í þjóðfélaginu nægur til að
skipuleggja tvo viðburði og félög vinstri manna nýttu sér almenna velvild í
garð Sovétríkjanna eftir stríðið til að vekja athygli á grunngildum þeirra og
áróðri um velferð í þágu verkamanna og alþýðu.
Eftir stríðið studdu Sovétmenn við endurreisn vinafélaga víðs vegar
um heiminn og frá árinu 1950 skipulagði félagið MÍR árleg hátíða-
höld um land allt, sem og samskipti við VOKS í Moskvu og sendiráð-
ið. Stórafmælin voru áfram sérstaklega vegleg og á eftirstríðsárunum og
tímum kalda stríðsins átti sendiráð Sovétríkjanna í Reykjavík mikinn þátt
í að gera byltingarafmælin að viðburði í bæjarlífinu með því að bjóða fyr-
irmennum í samfélaginu, sósíalistum og öðrum, til móttöku, sem og með
styrkveitingum til listviðburða og sýninga um allt land. Þó menningar- og
útbreiðslustarf íslenskra sósíalista hafi verið öflugt á millistríðsárunum
og fjölmargir hópar staðið fyrir hátíðahöldum í tilefni byltingarafmæl-
isins má segja að aldrei hafi áróðursstarf sósíalista verið eins kröftugt og á
fyrstu fimm starfsárum MÍR, 1950–1955.20 Um miðbik sjötta áratugarins
fór að halla undan fæti þegar hörð atlaga var gerð að grundvallargildum
byltingarinnar – sem hófst með opinberunum Khrúsjovs um Stalín og
náði hámarki við innrás Sovétmanna í Ungverjaland – og menningarstarf
íslenskra sósíalista beið þess í raun aldrei bætur þó alltaf væri haldið upp á
byltingarafmælin.
Byltingarafmælið 1956 (Ungverjaland) og 1957 (Spútnik)
Segja má að allt menningar- og áróðursstarf sósíalista, og ekki síst hátíða-
höld vegna byltingarinnar, hafi árin 1956 og 1957 verið flóknari en nokkru
sinni fyrr; jafnvel enn erfiðari viðureignar en á árunum 1939–40 þegar
almenningsálit á Sovétríkjunum beið síðast stóran hnekki á alþjóðavett-
vangi. Í febrúar árið 1956 hafði Khrúsjov haldið hina alræmdu leyniræðu
þar sem Stalíndýrkun liðinna ára var gagnrýnd og þremur dögum fyrir
19 Þjóðviljinn 7. nóvember 1945, bls. 1 og bls. 8.
20 Sjá hér t.d. grein mína „Menningarstríð í uppsiglingu: Stofnun og upphafsár vina-
félaga Bandaríkjanna og Sovétríkjanna á Íslandi,“ Ný saga 12 (2000), bls. 29–40.
„LÍTILMAGNANS MORGUNROðI?“