Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 108
107
Þóra taldi upp fleiri sósíalista og Rússlandsvini sem tóku það skýrt fram
að þeir myndu ekki mæta í sendiráðið 7. nóvember. Vilborg Dagbjartsdóttir
hafði t.d. verið að „kenna rússneskum manni hérna íslensku. Hún sagði
upp kennslunni og gaf þá yfirlýsingu að hún mundi aldrei framar stíga fæti
sínum í rússneska sendiráðið.“ Greinilegt var að í augum margra íslenskra
sósíalista var hunsun 7. nóvember móttökunnar í sendiráðinu táknrænt
skref í þá átt að sýna að þeir samsömuðu sig ekki lengur Sovétríkjunum.71
Sendiráðsmenn tóku þetta óstinnt upp og eru heimildir fyrir því að sov-
éskir sendiráðsmenn hafi ekki haft samband við Einar Olgeirsson í hálft
ár eftir að hann gagnrýndi hernaðarklíkuna sem hann sagði öllu ráða í
Sovétríkjunum þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við innrásinni í
Tékkóslóvakíu.72
Haustið 1968 var skrifstofu MÍR lokað, starfsmaður samtakanna sagði
upp störfum og enginn nýr fékkst í staðinn.73 Starfið samtakanna átti eftir
að taka við sér aftur en líkt og árið 1956 stóð MÍR, eftir því sem næst
verður komist, ekki fyrir hátíðahöldum í tilefni byltingarinnar árið 1968.
Sovétmenn buðu venju samkvæmt til móttöku sem nú fór fram kvöldið
fyrir byltingarafmælið, hinn 6. nóvember 1968, milli kl. 5 og 7 en ekki
fer sögum af því hversu margir mættu þar. Líkt og árið 1956 var efnt til
mótmæla við sendiráðið og voru alls 12 unglingar handteknir meðan á
þeim stóð en átökin virðast þó ekki hafa verið jafn hörð og tólf árum fyrr,
a.m.k. gerðu fjölmiðlar sér ekki eins mikinn mat úr þeim.
Lokaorð
Afmæli rússnesku byltingarinnar hinn 7. nóvember voru ávallt tilefni
mikilla blaðaskrifa og deilna þvert á flokkspólitískar línur. Hátíðahöld
íslenskra sósíalista lituðust óneitanlega af utanaðkomandi viðburðum, eins
og innrásunum í Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakíu 1968 en draga má
ýmsar ályktanir af viðbrögðum sósíalista við atburðunum, þó einungis hafi
hér verið horft til þess hvernig þeir brugðust við þátttöku í hátíðahöld-
unum sjálfum. Margt fleira spilaði auðvitað inn í viðbrögð Íslendinga við
innrásunum, t.d. afstaðan til ameríska hersins, en þegar horft er til bylt-
71 Lbs. 25 NF, Askja 15, Bréf Þóru Vigfúsdóttur til Kristins E. Andréssonar, 10.
september 1968.
72 Valur Ingimundarson, Uppgjör við umheiminn, bls. 109.
73 Lbs. 25 NF, Askja 15, Bréf Þóru Vigfúsdóttur til Kristins E. Andréssonar, 10. sept-
ember 1968.
„LÍTILMAGNANS MORGUNROðI?“