Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 112
111
Kjartan Ólafsson
Bolsévisering
Sálarstríð Einars og tvær ákærur
Á 2. flokksþingi Kommúnistaflokks Íslands, sem haldið var í Reykjavík dag-
ana 15.–24. nóvember 1932 var tekist á af hörku um hugmyndafræðilegar
skilgreiningar og var deilan um skilgreiningu á sósíaldemókrötum í brenni-
depli. Þingið sátu 43 fulltrúar ef marka má ljósmynd af hópnum. Af þeim
voru a.m.k. 23 eða röskur helmingur úr Reykjavík en einnig voru mætt-
ir fulltrúar frá Siglufirði, Akureyri, Eskifirði, Vestmannaeyjum, Ísafirði,
Húsavík og Hafnarfirði og þrír sem ekki hefur tekist að staðsetja.1
Á 6. heimsþingi Komintern í Moskvu árið 1928 hafði verið tekin upp
mjög hörð stefna gegn sósíaldemókrötum. Þar var því slegið föstu að krat-
arnir væru „höfuðstoð auðvaldsins“ og að eitt helsta verkefni kommúnista
um víða veröld væri að sýna fram á þetta og afhjúpa forystumenn kratanna.
Með Stalínbréfinu frá október 1931 var hert enn frekar á þessari kröfu.2
Í ágústmánuði árið 1932 voru Kommúnistaflokki Íslands send tvö bréf frá
Komintern, alþjóðasambandi kommúnista, með leiðbeiningum varðandi
flokksþingið. Í fyrra bréfinu er meðal annars lögð áhersla á að barist verði
gegn sérhverju fráviki frá pólitískri línu alþjóðasambandsins og minnt á
mikilvægi Stalínbréfsins. Í síðara bréfinu er flokknum falið að herða róð-
urinn við að afhjúpa sósíaldemókrata og koma á bolsévisku flokksskipu-
1 Þór Whitehead, Kommúnistahreyfingin á Íslandi 1921–1934 (Reykjavík: Bókaútgáfa
Menningarsjóðs, 1979). Sjá ljósmynd aftan við bls. 80 og texta sem fylgir mynd-
inni.
2 Stalín sendi ritstjórum tímaritsins Proletarskaja Revoljutsíja lesendabréf þar sem
hann gagnrýndi höfund greinar sem tímaritið hafði birt fyrir sögufalsanir um
afstöðu Leníns til þýskra sósíaldemókrata fyrir 1914. Bréfið vakti ofsafengin við-
brögð og leiddi til þess að skorin var upp herör gegn „hægri tækifærisstefnu.“ Fjöldi
manns var rekinn úr flokknum í kjölfarið. Viðbrögðin náðu einnig til alþjóðahreyf-
ingar kommúnista og urðu til að herða enn á herskáu viðhorfi kommúnista til
sósíaldemókrata. Sjá John Barber, „Stalin’s letter to the editors of Proletarskaya
revolyutsiya“ Soviet Studies, 28 (1), 1976, bls. 21–41.
Ritið 3/2017, bls. 111–125