Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 120
119
Akureyri, átt góða möguleika á að ná kjöri og verða þar með þingmaður
Akureyrar, sem þá var einmenningskjördæmi.18
Þann 27. nóvember 1933 er sagt frá brottrekstri Stefáns og Hauks úr
miðstjórn Kommúnistaflokksins og tekið fram að landsfundur miðstjórn-
arinnar hafi verið boðaður til að „skerpa baráttuna gegn tækifærisstefn-
unni og sáttfýsinni við hana.“ Lesendur Verklýðsblaðsins fá að heyra að á
fundinum hafi í fyrsta skipti verið gerðar „alvarlegar ráðstafanir til þess að
ganga á milli bols og höfuðs á þessum sóttkveikjum burgeisanna – tækifær-
isstefnunni og sáttfýsinni við hana.“19
Þarna er fullyrt að „klíka Stefáns“ hafi komið í veg fyrir „að flokknum
tækist með miskunnarlausri sjálfsgagnrýni að framfylgja hinni réttu stefnu
í afstöðunni til sósíaldemókrata.“ Tekið er fram að þeir sem sýnt hafi „rotið
frjálslyndi og sáttfýsi við tækifærisstefnuna, eins og Einar Olgeirsson“ hafi
fengið „skarpa gagnrýni“ á fundinum. Í sjálfri ályktun fundarins, sem birt
er í heild í sama blaði, segir að vinstri sinnaðir sósíaldemókrataforingjar
séu „hættulegustu andstæðingar“ kommúnista og þar er líka komist svo að
orði: „Það hefur ekki verið tekið í taumana við félaga Einar Olgeirsson,
sem hefur haldið áfram á línu sáttfýsinnar og reynt að hindra hlífðarlausa
baráttu gegn tækifærisstefnunni og leiðtogum hennar.“ Ekki fer á milli
mála að þarna er Einari hótað hörðu.20
Innan Kommúnistaflokksins var nú sótt kröftuglega að Einari
Olgeirssyni. Meginkrafan á hendur honum var að hann féllist á að gagn-
rýna sjálfan sig og viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér, um skilgreiningu
á pólitísku eðli sósíaldemókrata. Einar var lengi tregur til en þegar leið á
haustið gagnrýndi hann sjálfan sig á miðstjórnarfundi.
Í varðveittum heimildum, sem fram hafa komið verður hvergi séð
hvernig hann orðaði að lokum þessa gagnrýni. Viss drög að slíkum texta
eru þó til með rithönd Einars á fjórum gulum blöðum. Ljóst er að þessi
blöð hefur formaður Kommúnistaflokksins, Brynjólfur Bjarnason, fengið í
hendur og gert við þau athugasemdir, er hann skrifaði aftan á þau.
Athugasemdir Brynjólfs eru þrjár og hljóða svo:
1. „Hér þarf að koma viðbót um fraktionsstarfsemina, undir forystu
St. P. og stuðning félaga E.O. og fleiri við hana, með sáttfýsi sinni.“
18 RGASPI 495 177 21 bls. 22–23. Yfirlýsing Stefáns Pjeturssonar og Hauks S.
Björnssonar 26.7. 1933.
19 „Landsfundur miðstjórnar“ Verklýðsblaðið 27.11. 1933, bls. 1–2.
20 Sama heimild.
BOLSÉVISERING