Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 121
120
2. „Gera kröfu til þeirra félaga, sem hafa haft forystu fyrir opport-
unismanum að þeir fletti ofan af fraktionsstarfsemi sinni og truflun
á flokksstarfinu.“
3. „Án allra tilrauna til afsakana.“
Enginn veit nú hvort Einar féllst á þessar kröfur Brynjólfs en það verður
að teljast fremur ólíklegt vegna þess að vorið 1934 var hann enn að gera
sér vonir um endurkomu Stefáns Pjeturssonar til starfa í flokknum. Að
Einar hafi gagnrýnt sjálfan sig á fundi miðstjórnar flokksins í nóvember
1933 er þó fullvíst.21
Til marks um það höfum við líka hans eigin orð í uppkasti að bréfi, sem
hann ritaði Komintern, en efni þess ber með sér að það muni ritað í apríl
1934. Í bréfinu gerir Einar nokkra grein fyrir ágreiningi sínum við meiri-
hlutann í miðstjórn flokksins og viðurkennir að sáttfýsi við tækifærisstefn-
una hafi, um nokkurt skeið, tafið fyrir því að flokkurinn sliti alla þræði sem
tengdu hann við vinstrikrata.22 Í uppkasti bréfsins er hins vegar að finna
ýmislegt sem hann hefur fellt niður við hreinritun þess. Einar segir þar að
við að játa villur sínar og bera fram sjálfsgagnrýni, haustið 1933, hafi traust
hans á sjálfum sér skaddast og þess vegna hafi hann, nú að undanförnu,
látið miklu minna að sér kveða í forystu flokksins heldur en áður.23
Í sjálfu bréfinu, sem sent var til Moskvu, leyfir Einar sér eigi að síður að
bera fram margvíslega gagnrýni á meirihlutann í forystu íslenska flokksins.
Kjarni þeirrar gagnrýni er að vinnubrögð þeirra, sem þar ráði ferð, dugi
alls ekki til að ná til fjöldans, út á meðal verkalýðsins. Hjá ráðandi meiri-
hluta í miðstjórn flokksins snúist flest um brottrekstur Stefáns Pjeturssonar
úr flokknum en öðrum og stærri málum sé ekki sinnt.24
Þegar hér var komið sögu var Stefán orðinn nemandi við Lenínskólann
í Moskvu og bréfið ber með sér að Einar gerði sér enn vonir um að þar
eystra tækist mönnum að forða þessum fornvini hans frá villu síns vegar og
leiða hann á rétta braut.
21 RGASPI 495 177 22, bls. 3–6. Bréf K.Í. til Norðurlandaskrifstofu Komintern,
móttekið 16.3 1934.
22 RGASPI 495 177 22, bls. 15–17. Ódagsett bréf Einars Olgeirssonar frá vorinu 1934
til Komintern.
23 Óflokkuð gögn úr dánarbúi Einars Olgeirssonar í vörslu Sólveigar K. Einarsdóttur.
Á þýsku orðar Einar þetta svo: „In meinem eigenen Selbstvertrauen aber war ich
etwas erschüttert, weshalb ich in der Parteiführung viel mehr zurückhaltend als
früher war.“
24 RGASPI 495 177 22, bls. 17.
KJaRtan Ólafsson