Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 125
124
Þeir Brynjólfur og Stefán voru jafnaldrar, báðir fæddir 1898. Kærurnar
sem þeir lögðu fram í Moskvu, hvor á hendur öðrum, veturinn 1933–1934,
kunna að sýnast hjákátlegar liðlega átta áratugum síðar en þegar þær voru
samdar og lagðar fram var ekkert spaug á ferðum, heldur rammasta alvara.
Þeir sem lent höfðu upp á kant við flokka sína eða yfirstjórnina í Moskvu
gátu ekki verið öruggir um frelsi sitt. Stefán dvaldi í Moskvu fram á sumar
1934, er hann var rekinn úr Kommúnistaflokki Íslands og jafnframt úr
Lenínskólanum. Stefán hafði áður leitað liðsinnis danska sendiráðsins, en
hann gerði sér grein fyrir því sem yfir honum vofði. Gögn hafa síðar komið
fram sem sýna að til tals kom að handtaka Stefán á landamærunum.29
Endirinn varð þó sá að Stefán slapp við handtöku. Þess í stað var hann
í byrjun júnímánaðar 1934 gerður landrækur úr Sovétríkjunum.30 Sterkar
líkur má leiða að því að pólitísk kúvending Komintern vorið 1934 – þegar
ákall um samfylkingu með sósíaldemókrötum var gert að boðorði dagsins
– hafi orðið Stefáni til bjargar.
Stefán Pjetursson var tíu ár við háskólanám í sagnfræði í Berlín, 1921–
1931. Áður en hann hélt til Berlínar náði hann að skrifa bók sína Byltingin
í Rússlandi og var hún gefin út hér 1921. Stefán var þaullesinn í fræðum
Marx, Engels og Leníns og á námsárum hans í Berlín var hann stundum
nefndur „Lenín Íslands“ hér heima, bæði í hálfkæringi og alvöru.
Eftir heimkomuna frá Moskvu og brottreksturinn úr Komintern
fór Stefán hins vegar að halla sér að Alþýðuflokknum og gerðist harð-
ur andkommúnisti. Hann var lengi ritstjóri Alþýðublaðsins. Við stofnun
Kommúnistaflokks Íslands árið 1930 varð Brynjólfur Bjarnason formaður
hans og gegndi formennsku í flokknum uns hann var lagður niður árið
1938. Brynjólfur var formaður miðstjórnar Sósíalistaflokksins frá 1938 til
1963. Hann sat á Alþingi frá 1937 til 1956 og var ráðherra menntamála
1944–1947.
Við hlið Brynjólfs var Einar Olgeirsson annar helsti leiðtogi Kom m-
únistaflokks Íslands. Einar var formaður Sósíalistaflokksins frá 1939 til
1968 og sat á Alþingi 1937–1967. Þegar Sósíalistaflokkurinn var lagður
niður og Alþýðubandalagið gert að flokki árið 1968 gengu bæði Brynjólfur
og Einar í hinn nýja flokk. Við þau tímamót var blómaskeið þeirra á enda
runnið. Báðir náðu þessir íslensku kommúnistaleiðtogar að verða níræðir.
29 Jón Ólafsson, Kæru félagar, bls. 77.
30 Þór Whitehead, Sovét-Ísland óskalandið. Aðdragandi byltingar sem aldrei varð 1921–
1946 (Reykjavík: Ugla, 2010), bls. 285.
KJaRtan Ólafsson