Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Side 155
154
á heima?“ og fékk jafnan svör í þessum dúr: „Þarna í stóra húsinu niðri á
eyrinni.“ eða „Það er ögn utar með firðinum.“ Einhverjir munu eflaust
segja að slík svör vitni um barnslega afstöðu fólks er geri ekki greinarmun á
skáldskap og veruleika. Umfram annað sýna þau þó að í heimi Sölku Völku
hefur persónan Jóhann Bogesen eiginleika sem fólk í ýmsum sjávar plássum
þóttist þekkja frá þálifandi útgerðarmönnum. Vert er líka að minnast þess
sem kallað hefur verið lögmálið um minnsta frávikið (e. the principle of
minimal departure): Þegar menn lesa frásagnir gera þeir ráð fyrir að þær
hafi einhver tengsl við raunheiminn uns annað kemur á daginn.32
Fjölmörg dæmi af sama tagi og frásögnina af Jóni má taka um heima
þeirra sagna sem alljafna eru kallaðar raunsæjar. Hinar sem kenndar eru
við hugarflug og furður segja þó ekki ósjaldan frá heimum þar sem flest
kann að bera svip veruleikans annað en fáein fyrirbæri, eiginleikar og
aðstæður. Enda þótt tröllskessur, þ.e.a.s. verur sem ekki eru þekktar úr
veruleikanum, séu t.d. í heimi ævintýrsins Búkolla og stelpan, og þar hlýði
páll og reka umsvifalaust fyrirskipunum í máli, rær karlinn í kotinu til
fiskjar dag hvern, eins og ótal kotkarlar í veruleikanum hafa gert fyrr og
síðar, og dætur hans ganga langan veg að leita að kú sem hefur týnst, eins
og fjölmargar stúlkur af holdi og blóði hafa gert. Jafnvel tröllskessurnar
hafa þarfir og eiga ílát sem eru gamalkunn í veruleika lifandi manna, ef
marka má þessi orð:
Næsta morgun kveðst skessan hafa ætlað Helgu starf í dag. „Þú
skalt,“ segir hún, „elda fyrir mig, búa um rúmið mitt og hella úr
koppnum mínum og vera búin í kvöld, ella mun ég drepa þig.“33
Það er því ekki að undra að kenningin um hugsanlega heima hefur verið
notuð til að flokka skáldaðar sögur eftir tengslum þeirra við virka heiminn
(raunheiminn). Doreen Maitre mun hafa orðið einna fyrst til þess. Hún
hafði hugsanleika (e. possibility) í virka heiminum að viðmiði og nefndi
fjóra meginflokka texta 1) verk sem vísuðu til sögulegra atburða, 2) verk
sem fengjust við ímyndað ástand mála sem gæti þó átt við í virka heim-
inum, 3) verk sem sveifluðust milli þess að geta átt við í virka heiminum
32 Sjá t.d. Marie-Laure Ryan, „The Principle of Minimal Departure“, Possible worlds,
Artificial Intelligence, and Narrative Theory, bls. 48. Margt hefur verið skrifað um
„óhugsanlega heima“ (e. impossible worlds) en hér verður ekki fjallað um það.
33 Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri II, safnað hefur Jón Árnason, útg. Árni Böðvarsson
og Bjarni Vilhjálmsson, Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1954, bls. 445.
beRglJÓt soffía KRistJÁnsdÓttiR