Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 168
167
ingu Silfurtúnglsins hlýtur Halldór Laxness Nóbelsverðlaunin og er eftir
það ekki bara þjóðskáldið heldur ósnertanlegur, svo ósnertanlegur að jafnvel
einkavilla, útisundlaug og Jagúar köstuðu ekki rýrð á pólitísk heilindi hans.
Deilurnar um Atómstöðina (1948) eru meira að segja næstum því gleymdar.9
Silfurtúnglið segir frá Lóu, nýbakaðri móður sem er hamingjusamlega
gift bankastarfsmanni á uppleið. Hjónakornin búa í litlu þorpi bakvið fjall,
þar sem ys og þys nútímans er líkt og nær ógreinanlegt bergmál úr öðrum
heimi. En þegar æskuvinkonu Lóu ber að garði, heimsþekktu söngkon-
una Ísu, og hún tekur ástfóstri við vögguvísu sem Lóa hafði einhvern tíma
samið án mikillar umhugsunar, kemst hreyfing á smábæjartilvistina. Ísa
segir umboðsmanni sínum, Feilan Ó. Feilan, frá undraverðu söngkonunni
sem hún fann norðan heiða. Ekki síður hrifinn býður hann Lóu samning
við Silfurtúnglið, skemmtistað í höfuðborginni, og lofar sveitastúlkunni
frægð og frama. Öllum að óvörum samþykkir Lóa málaleitanir Feilans,
yfirgefur því næst mann og barn og heldur á vit borgarinnar. Margt fer
þó öðruvísi en ætlað er og stjörnubjartir draumar Lóu reynast fjarri veru-
leikanum sem hún kemst í kynni við í bænum, þar sem ræsið bíður hennar
frekar en rauði dregillinn.
Þegar um Silfurtúnglið er rætt vekur nær undantekningarlaust athygli
hvernig leikritið dregur upp mynd af íslenskum (og alþjóðlegum) dægur–
og skemmtanaheimi á árunum eftir seinna stríð. Þetta er að vísu hvorki í
fyrsta né síðasta sinn sem Halldór snertir á slíku efni. Í smásögunni „Júdit
Lvoff“ (1922) er bandaríski kvikmyndaiðnaðurinn þræddur inn í sögufram-
vinduna, Atómstöðin lýsir nýtilkominni æskulýðsmenningu Reykjavíkur,
hippamenning sjöunda áratugarins skáskýtur sér inn í Kristnihald undir
Jökli (1968) og í Guðsgjafaþulu (1972) gegna gamlar Hollywoodmyndir og
bíóið sem sýnir þær mikilvægu hlutverki.
Árni Ibsen hefur gert glímu Halldórs við ríkjandi menningariðju 20.
aldarinnar, kvikmyndina, að umfjöllunarefni og bendir í því samhengi á að
fyrstu ummerkin um að Halldór sjái menningarsviðið sem vettvang átaka
milli hagsmunahópa sé ritgerðin sem hann skrifaði meðan hann dvaldist
„er að þar á ekki nema einn maður tryggt sæti. Halldór Laxness er ekki bara her-
foringi, hann er á vissan hátt einvaldur.“ „Laxness og aðrir höfundar. Skáldsagan
og bókmenntasagan“, Umbrot. Bókmenntir og nútími, Reykjavík: Háskólaútgáfan,
1999, bls. 13–29 , hér bls. 18.
9 Halldór var umdeildur á þessum árum og raunar álitinn hættulegur af valdamönn-
um þjóðarinnar, en Atómstöðin hafði bakað honum meiri óvild en nokkuð sem hann
hafði áður skrifað.
„TUNGLIð, TUNGLIð TAKTU MIG“