Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 169
168
í Hollywood, „Kvikmyndin ameríska 1928“. Tengingin sem Árni dregur
í framhaldinu milli textanna tveggja, ritgerðarinnar og leikverksins, gæti
heldur ekki verið beinni, en hann bendir á að í ritgerðinni bryddi Halldór
„upp á því ádeiluefni sem hann átti síðar eftir að hugleiða í dramatísku
formi, fyrst og fremst í Silfurtúnglinu“.10 Ádeiluefnið sem Árni nefn-
ir er hvernig „auðhyggjusjónarmið“ kapítalískra nútímasamfélaga bjaga
og torvelda listsköpun, auk þess sem þau vanvirða lífið í öllum sínum
fjölbreytilegu myndum.11 Enda þótt aldarfjórðungur líði á milli útgáfu
Alþýðubókarinnar og frumsýningar Silfurtúnglsins eru tengslin milli þeirra
jafn skýr og Árni gefur til kynna. Í Silfurtúnglinu er alþjóðlega samsteyp-
an Universal Concert Incorporated hliðstæða „hefðbundins“ bandarísks
kvikmyndavers, en nánar er fjallað um þetta heldur óskemmtilega fyrirtæki
sem og merkingarvirkni „kvikmyndaverkbólanna“, en svo nefndi Halldór
kvikmyndaverin, hér að neðan.12
Líkt og fleiri sem um leikrit Halldórs hafa skrifað veltir Árni jafnframt
fyrir sér hvernig skuli staðsetja þau og skilgreina í samhengi við höfund-
arverkið í heild. Niðurstaðan er í samræmi við tengslin sem Árni bendir
á milli ritgerðarinnar í Alþýðubókinni og efnistaka Silfurtúnglsins, það er
að segja að leikritun Halldórs sé best staðsett „miðja vegu milli þeirra
10 Árni Ibsen, „‚Smáheimur, eins og okkar‘: Halldór Laxness“, Íslensk bókmenntasaga
V, ritstj. Guðmundur Andri Thorsson, Reykjavík: Mál og menning, 2006, bls.
235–238, hér bls. 238. Hér að ofan er talað um „endanlega“ mynd ritgerðar Hall-
dórs um Hollywood, og ástæðan fyrir þessu orðalagi er að nokkru fyrir útgáfu
Alþýðubókarinnar höfðu lykilkaflar hennar birst á þýsku í kaþólska ritinu Das
Neue Reich. Um leið er þessi lýsing að sumu leyti villandi þar sem Halldór breytti
ritgerðinni umtalsvert í annarri útgáfu Alþýðubókarinnar og breytinga varð enn vart
í þriðju útgáfu. Sjá um þetta Björn Þór Vilhjálmsson, „Modernity and the Moving
Image: Halldór Laxness and the Writing of ‘The American Film in 1928’”, Journal
of Scandinavian Cinema, 2/2011, bls. 135-143.
11 Árni Ibsen, „‚Smáheimur, eins og okkar‘“, bls. 236.
12 Þegar Silfurtúnglið er frumsýnt var tími kvikmyndaveranna í Hollywood og „stúd-
íókerfisins“ svokallaða liðinn undir lok, en það var árið 1948 sem viðskiptahættir
kvikmyndaveranna voru dæmdir ólöglegir (svokölluð „Paramount–ákvörðun“ í
hæstarétti Bandaríkjanna). Þegar Halldór dvelst í Kaliforníu á ofanverðum þriðja
áratugnum og skrifar ritgerð sína um Hollywood er hann hins vegar bókstaflega
sjónarvottur að því þegar stúdíókerfið rís hvað hæst; það mætir áskorun talmynd-
anna og fullmótar á sama tíma viðskiptahættina sem tryggðu örfáum fyrirtækjum
full yfirráð yfir einni stærstu og arðvænlegustu iðngrein þjóðarinnar – eða allt þar
til halla tekur undan fæti tuttugu árum síðar. Fjöldi heimilda er fyrir hendi um þetta
skeið bandarískrar kvikmyndasögu en sérstaklega má mæla með Douglas Gomery,
The Hollywood Studio System: A History, London: The British Film Institute,
2008.
bJöRn ÞÓR vilhJÁlMsson