Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 170
169
tveggja bókmenntategunda sem hann sinnti betur og með meiri árangri en
aðrir á öldinni“, skáldsagnanna og ritgerðanna.13 Fyrsta leikrit Halldórs,
Straumrof (1932), fellur einnig að tilgátunni, upp að því marki sem það
kallast á við ritgerðir sem Halldór skrifaði á þriðja áratugnum á borð við
„Af íslensku menningarástandi“ (1925) og „Raflýsing sveitanna“ (1927).14
Vandasamara er hins vegar að finna hliðstæður milli ritgerða Halldórs
og síðleikritanna þriggja, Strompleiksins (1960), Prjónastofunnar Sólarinnar
(1962/1966) og Dúfnaveislunnar (1966). Helst væru það afstaða til stríðs-
reksturs sem birtist í leikritunum og ýmsum ritgerðum Halldórs sem
kæmu til greina en þó væru samsvaranir hvorki jafn beinar né augljósar
og í tilviki forveranna. Þá kann sú hugsun að hvarfla að lesanda að um leið
og Árni þiggi stefnumið leikritaflokkunar sinnar frá bókmenntaformum
sem léku í höndunum á Halldóri, þá aðgreini hann leikritin frá þeim með
afdráttarlausum hætti, og að í því felist ákveðinn gildisdómur.
„Kvikmyndin ameríska 1928“ og Silfurtúnglið deila gagnrýnu viðhorfi
í garð þeirra nútímalegu rökvæðingarferla í framleiðslu og dreifingu á
menningarafurðum sem birtast hvergi skýrar en í bandaríska kvikmynda-
iðnaðinum, og hafa Hollywoodmyndir einmitt stundum verið kenndar
við „færibandaframleiðslu“ af þessum sökum. Hér að neðan verður þessi
túlkunarleið vakin aftur til lífsins, og rýnt í það hvernig Silfurtúnglið tekur
„menningariðnaðinn“ til umfjöllunar, svo vísað sé til hugtaks Theodors
Adorno og Max Horkheimer.15 Umfram það verður rætt hvernig leikritið
gangsetur og flækir merkingarvirkni kvenleika og kynferðis með því að
beina sjónum sérstaklega að kynjuðum merkingarsviðum þeirrar tækni–
og menningarbyltingar sem tuttugasta öldin hafði í för með sér. Ýmsu er
bætt við fyrri útleggingar og leikritið greint með öðrum hætti en áður.
Ekki er hins vegar reynt að bera Silfurtúnglið saman við verk annarra leik-
skálda sem voru virk á sjötta og sjöunda áratug liðinnar aldar og þannig
staðsetja Laxness innan íslenskrar leikhússögu, þótt þar væri vissulega um
forvitnilegt verkefni að ræða. Frekar er leitast við að staðsetja Silfurtúnglið
13 Árni Ibsen, „‚Smáheimur, eins og okkar‘“, bls. 236.
14 Halldór Laxness, „Raflýsing sveitanna“, Alþýðublaðið, 8., 10., 14., 16., 17., 21., 24.,
26., og 30. mars, 1927; Halldór Laxness, „Af íslensku menníngarástandi“, Vörður,
27. júní, 11. júlí, 26. september, 3. október, 28. nóvember, 5. desember, 1925.
15 Kaflinn úr Díelektík upplýsingarinnar þar sem menningariðnaðshugtakið er kynnt til
sögunnar og fjallað er um Hollywood hefur verið þýddur á íslensku. Sjá Theodor
Adorno og Max Horkheimer, „Menningariðnaður. Upplýsing sem múgsefjun“,
þýð. Benedikt Hjartarson, Áfangar í kvikmyndafræðum, ritstj. Guðni Elísson,
Reykjavík: Forlagið, 2003, bls. 234–271.
„TUNGLIð, TUNGLIð TAKTU MIG“