Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 171
170
í menningarlegu og hugmyndasögulegu samhengi, og verður þar ekki síst
litið út fyrir landsteinana enda eru skírskotanir verksins alþjóðlegar.
Handan kvikmyndaverkbólanna
Þegar rætt er um Silfurtúnglið í samhengi við menningarumsvif fjölþjóð-
legra stórfyrirtækja, hvort sem ritgerðin um Hollywood er fléttuð inn í
umfjöllunina eða ekki, er algengt að numið sé staðar skömmu eftir að bent
hefur verið á „ádeiluefnið“, sem Árni nefndi svo. Stefán Baldursson lýsir
leikritinu til að mynda sem ádeilu á „sýndarmennsku skemmtiiðnaðarins“
en þróar hugmyndirnar ekki lengra og Jóni Viðari Jónssyni þykir atburða-
rásin sem slík hvort sem er falla í skuggann af þjóðernislegri táknsögu sem
er að hans mati mikilvægari fyrir merkingarheild verksins.16 Freistandi
er hins vegar að halda lengra með greininguna á hinum „bókstaflegu“
efnisþáttum leikritsins og mætti í því sambandi benda á að skrif Halldórs
um kvikmyndir, afþreyingarmenningu og fjöldamenningu verða ekki til í
tómarúmi, hvorki ritgerðin um Hollywood né Silfurtúnglið.
„Kvikmyndin ameríska 1928“ er til að mynda mótuð af tilteknum
sögulegum og menningarlegum kringumstæðum. „Fínni“ stéttir höfðu
löngum illan bifur á kvikmyndum og kvikmyndahúsum. Ástæðurnar má
að hluta rekja til þess að þjóðfélagshóparnir sem fyrstir gerðu bíóferð-
ir að reglubundnum hluta af daglegu lífi sínu – verkafólk, innflytjendur,
konur og börn – voru af því taginu að broddborgarar ýmist kusu síður að
deila með þeim áhugamáli (innflytjendur og verkafólk) eða litu svo á að
um væri að ræða einstaklinga sem skorti dómgreind og „vit“ þurfti því að
hafa fyrir (konur og börn).17 Líkt og nú voru ákveðin viðhorf ríkjandi á
16 Stefán Baldursson, „Uppþornuð sítróna og tvær rauðar jólakúlur“, Sjö erindi um
Halldór Laxness, ritstj. Sveinn Skorri Höskuldsson, Reykjavík: Helgafell, 1973, bls.
81–105, hér bls. 92; Jón Viðar Jónsson, „Var Halldór Laxness gott leikritaskáld?“
Laxness og leiklistin, hönnun sýningaskrár Björn G. Björnsson, Jón Þórisson og
Ólafur J. Engilbertsson, samning sýningartexta Jón Viðar Jónsson, Samtök um
leikminjasafn: Reykjavík, 2002, bls. 24–27.
17 Sagan sem hér er sögð af viðhorfum í garð kvikmyndalistarinnar er sú bandaríska,
helstu stefin eru þaðan, en hins vegar hafa rannsóknir sýnt að umhverfið var ekki
ýkja frábrugðið í Evrópu. Fyrir áhugasama um bandaríska samhengið er óhætt
að mæla með Robert Sklar, Movie Made America: A Cultural History of American
Movies, New York: Vintage Books, 1994. Varðandi rannsóknir á viðtökum árbíósins
og kvikmyndagerð á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar utan Bandaríkjanna,
sjá Roberta Pearson, „Transitional Cinema“, The Oxford History of World Cinema,
ritstj. Geoffrey Nowell-Smith, Oxford og New York: Oxford University Press,
1996, bls. 23-43, hér bls. 36-38.
bJöRn ÞÓR vilhJÁlMsson