Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 172
171
meðan önnur voru umdeild eða á jaðri umræðunnar: Ungir leikstjórar í
Sovétríkjum voru kraftaverkamenn, það var nánast óumdeilt, og sömuleið-
is hafði óvæntur uppgangur verið í þýskri kvikmyndagerð. Miðlæg staða
Charlie Chaplin var óhagganleg, jafn óumdeild og kvikmyndaframleiðsla
verkalýðsfélaga þótti óboðleg.18 Þá voru bollaleggingar um fræðslu– og
uppeldishlutverk kvikmynda útbreiddar, jafnt í Evrópu og N-Ameríku.19
Aldarfjórðungi síðar er myndin af menningarlegu hlutverki, útbreiðslu
og áhrifamætti kvikmyndarinnar hins vegar önnur og að sumu leyti skýrari
og segja má að teikn sem að mati Halldórs og annarra voru á lofti á þriðja
áratugnum hafi umbreyst í daglegan veruleika, nema útkoman reyndist
frá þessu sjónarhorni jafnvel ógnvænlegri en óttast hafði verið. Tilkoma
neyslusamfélagsins og áður óþekkt markaðsvæðing menningarafurða,
ásamt fjöldamenningunni sem var fylgifiskur tækniþróunar og hins nýja
borgarsamfélags, ýtti undir slíkar áhyggjur.20 Ítrekað var spurt hvort öllu
væri fórnandi við altari skilvirkni og efnahagslegrar hagsældar, og hvort
að lífsmynstur hinnar „sjálfhverfu, útreiknuðu hagveru“, eins og Georg
Simmel skilgreindi hina nýju manntegund, borgarbúann, væri endastöð
framfarahugsjónarinnar.21
Þá er rétt að hafa í huga að viðhorf Halldórs til þjóðfélagsmála höfðu
heldur ekki staðið í stað. Í Alþýðubókinni er ólík viðhorf að finna en ljóst er
að Halldór er kominn vel áleiðis í vegferð sinni til sósíalismans. Á árunum
18 Um kvikmyndaframleiðslu bandarískra verkalýðsfélaga á þessu tímabili má lesa í
riti Steven J. Ross, Working Class Hollywood. Silent Film and the Shaping of Class in
America, Princeton: Princeton University Press, 1999, bls. 56–85.
19 Sjá til að mynda umfjöllun Heiðu Jóhannsdóttur um fræðslumyndir á vegum hins
opinbera og leiknar myndir um kynsjúkdóma á millistríðsárunum, „Konan, borgin
og kynsjúkdómar. Myndhverfing sóttnæmis í breskum fræðslumyndum“, Ritið,
2/2012, bls. 147–168.
20 Fjöldamenning í nútímalegum skilningi var ekki til fyrr en iðnaðarframleiðsla á
neysluvörum náði þeirri hagrænu stærð og umfangi að mögulegt var að umbreyta
verkafólki og millistéttinni í neytendur menningarafurða. Að menningarvett-
vangurinn taki breytingum í takt við tækniþróun hefur haldist óbreytt, að því
undanskildu að hnattrænt viðskiptaumhverfi síðkapítalismans hefur á undanförnum
áratugum ýtt mjög undir einokun og fákeppni á risastórum mörkuðum. Sjá um
þetta Raymond F. Betts, A History of Popular Culture. More of Everything, Faster and
Brighter, London og New York: Routledge, 2004, einkum bls. 79–107, og Gerben
Bakker, Entertainment Industrialised. The Emergence of the International Film Industry,
1890–1940, Cambridge and New York: Cambridge University Press, 2008.
21 Georg Simmel, „The Metropolis and Mental Life“, The City Cultures Reader. 2nd
Edition, ritstj. M. Miles og T. Hall, New York og London: Routledge, 2004, bls.
12–19, hér bls. 14.
„TUNGLIð, TUNGLIð TAKTU MIG“