Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 173
172
þar á eftir verða viðhorf hans róttækari og á fjórða áratugnum og fram á
þann fimmta á Halldór samleið með kommúnistum, bæði hérlendis og
erlendis. Eftir seinna stríð verður staðan flóknari, að hluta til vegna þess
að Stalín erfiðar mjög vinstri mönnum í Evrópu (og annars staðar) að
kyngja fylgispekt við kommúnistalínuna. Sjálfstæði þjóðarinnar í kalda
stríðinu og hlutleysi hennar verða Halldóri sífellt ofar í huga. En þótt um
þessa þróun sé að ræða, og hún sé umfangsmikil, mildast viðhorf skáldsins
til Bandaríkjanna ekki svo mjög, né viðhorf hans til „heimsvaldastefnu“
bandarískrar skemmtanamenningar. Rök má því færa fyrir því að umfram
sumt annað í Alþýðubókinni megi rekja þennan tiltekna þráð nokkuð fum-
laust áfram í höfundarverkinu – um aldarfjórðung og jafnvel lengur. En
auðvitað litast viðhorf hans til „menningariðnaðarins“ ameríska einnig af
atburðarás sögunnar, breyttum aðstæðum og líðandi stund. Hér að neðan
verður einmitt vikið að því hvernig Silfurtúnglið býður upp á slíkan „sam-
tímalegan“ leshátt.
Þá er hægt að víkka út hugmyndina um „heimsvaldastefnu“ Hollywood
með því að tengja útbreiðslu og innri rökvísi bandarískrar kvikmyndafram-
leiðslu við umræðu um áhrif umfangsmikilla nútímavæðingarferla og tækni-
framfara sem á nokkrum áratugum umbreyttu lífsháttum Vesturlandabúa
á fordæmalausan hátt. Menningargagnrýni Silfurtúnglsins kallar á túlkun
sem felst ekki einvörðungu í því að skera úr um hvort tiltekin sjónarmið
eða ferli í kvikmyndaframleiðslu séu jákvæð í eðli sínu eða neikvæð. Þess
í stað er nauðsynlegt að gaumgæfa hvernig Halldór glímir við vandamál
nútímavæðingar og þversagnir framfarahugtaksins, og ennfremur hvernig
viðfangsefni tengd samfélagsbreytingum iðn- og tæknivæðingar birtast
í Silfurtúnglinu, ekki síst í átökum leiksins við kynferðissjónarmið sam-
tíma síns. Hér á eftir verður dregin upp mynd af efnistökum leikverks-
ins og menningarpólitískum skírskotunum þess – þar á meðal vísunum í
kvikmyndaiðnað Hollywood – með það fyrir augum að umfjöllunin taki
til breiðara menningarlegs samhengis en áður hefur verið gert. Áðurnefnd
kynferðissjónarmið verða að lokum greind, í samhengi alþjóðlegs skemmt-
anaiðnaðar annars vegar, hins vegar í samhengi við siðferðisdómana sem
voru felldir yfir Lóu í upphaflegu viðtökunum.
Rödd þjóðardjúpsins
Tjaldið rís og við áhorfendum blasa fátækleg en þrifaleg híbýli. Þarna búa
Lóa, aðalpersóna Silfurtúnglsins, og eiginmaður hennar, Óli, ásamt nýfædd-
bJöRn ÞÓR vilhJÁlMsson