Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 179
178
Í greininni er draumaverksmiðjan kölluð „stóriðja“ og „taltól forrétt-
indastéttanna“.40 Hollywood tjáir „lífsviðhorf auðmagnsins“ sem hefur það
að markmiði „að hælast um yfir brautargeingi sínu við skrílinn og hvetja
hann til lotníngar og aðdáunar á mætti auðsins og dýrð“.41 Halldór fullyrð-
ir jafnframt að bandarískar kvikmyndir séu „ósnort[nar] af þeim rökum er
liggja til óháðrar skapandi listar.“42 Hins vegar, bætir hann við, hafa „kvik-
myndaverkbólin fyrir sér mjög skýrar vísitölur“.43 Sama á við um starfsemi
Universal Music Incorporated – markmiðið er að hámarka gróðann, og það
er fátt sem ekki er falt. Í ljósi þess að það er fátt sem Halldór ræðir gagn-
rýnislaust í ritgerðinni um kvikmyndaborgina er mikilvægt að halda því til
haga að hann gerir engu að síður greinarmun á kvikmyndinni sem nýjum
miðli og listformi og bandaríska kvikmyndaiðnaðinum:
Ég sé ekki hvernig hægt er að neita því að kvikmyndin, og þá ekki
síst hin talandi kvikmynd, sé tjáningarmiðill meðal fullkomnustu
uppgötvana menníngar vorrar; hún er hvorki meira né minna en
sameiníng ljósmyndar og leiklistar í eitt höfuðform, og það svo þan-
þolið að hæfileikum þess virðast engin takmörk sett. Hitt gegnir
öðru máli, enda má síst gleyma því þegar talað er um kvikmyndina
amerísku, að hún hefur orðið fyrir því hlutskipti að lenda með húð
og hári í klónum á andlega steingeldu verslunarvaldi […]44
Í leikritinu er Universal Music Incorporated hliðstæða hins „andlega stein-
gelda verslunarvalds“ og örlög Lóu eru ekki svo ólík örlögum kvikmyndar-
innar; niðurlægð af verslunarvaldinu. Að sama skapi er Silfurtúnglið vit-
anlega ekki að gagnrýna vögguvísuna sem slíka eða söngtjáningu almennt
heldur þá tilteknu birtingarmynd formsins sem kabarettsýning Feilans
þröngvar upp á Lóu.
40 Halldór Laxness, Alþýðubókin, bls. 131 og 137.
41 Sama rit, bls. 131 og 137. Fyrir frekari umfjöllun um grein Halldórs um kvikmynda-
verin í Hollywood og samfélagslegt hlutverk þeirra, sjá Björn Þór Vilhjálmsson,
„Modernity and the Moving Image: Halldór Laxness and the Writing of ‘The
American Film in 1928’“, Journal of Scandinavian Cinema, 1/2011, bls. 135–144,
og eftir sama höfund, „Audiences and Ideological Work in the ‘Dream Factory’:
Halldór Laxness and Cinematic Modernity“, Laxness und die europäische Moderne,
ritstj. Stefanie Wurth og Benedikt Hjartarson, Tübingen: Francke Verlag (vænt-
anleg).
42 Halldór Laxness, Alþýðubókin, bls. 131.
43 Sama rit, bls. 131.
44 Sama rit, bls. 132.
bJöRn ÞÓR vilhJÁlMsson