Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Qupperneq 183
182
mynda yfir áhyggjum af framtíðarhorfum þjóðarinnar á „öld kvikmynda,
raufarasagna og skrílræðis“.55
Í hinu nýja borgarumhverfi tók einnig að draga hratt úr persónulegum
og nánum samskiptum manna á millum, enda samfélagsgerð borga svo
flókin að hið iðandi mannlíf sem þær einkennir myndi líkast til stöðvast ef
treysta ætti á persónuleg samskipti til að greiða úr þeim fjölmörgu verkefn-
um sem einstaklingurinn framkvæmir á degi hverjum.56 Lengi ríkti held-
ur engin sátt um að hinum margþættu breytingum gætu mögulega fylgt
kostir af ýmsu tagi – frekar var rætt um „spillingu“ borgarlífsins og „öfgar“
nútímavæðingarinnar.57 Spilaði þar þátt sú staðreynd að nútímavæðing
iðnríkjanna virtist óhjákvæmilega grafa undan rótgrónum samfélagsform-
gerðum, einkum upp til sveita og í dreifbýli. Ólíklegt virtist að annað lægi
fyrir þessum lífsháttum en að hverfa með tímanum. Það að rót komst á
kynhegðun kvenna í öllum þessum látum var heldur ekki aukaatriði, þvert
á móti, það var í forgrunni umræðunnar um samfélagsbreytingar. Eins og
glöggt má sjá í íslenskum bókmenntum tók langan tíma að vinna úr áfall-
inu sem þessi byggðaröskun olli stórum þjóðfélagshópum.58
Ein birtingarmynd þessa áfalls, og tortryggninnar í garð nútímans sem
erfitt reyndist að friða, endurspeglast í „nostalgíu“ eða eftirsjá eftir horfn-
um heimi, einfaldari, náttúrulegri og raunsannari veruleika sem ekki er
55 Þorkell Jóhannsson, „Einar Benediktsson. Drög að kafla úr íslenskri menningar-
sögu“, Eimreiðin, 3/1924, bls. 133–152, hér bls. 137. Tilvitnun fengin úr Halldór
Guðmundsson, „Loksins, loksins“: Vefarinn mikli og upphaf íslenskra nútímabókmennta,
Reykjavík: Mál og menning, 1987, bls. 53.
56 Þéttbýlismyndun á Íslandi átti sér auðvitað stað með öðrum hætti en víða ann-
ars staðar, og e.t.v. er réttara að ræða í þessu samhengi um „bæjarmyndun“. En
miðað við lífið í örlitlum og afskekktum sjávarþorpum, samgöngulitlu dreifbýli,
einangruð um svæðum eins og Öræfum, heiðarkotum o.s.frv., er óhætt að telja öran
vöxt Reykjavíkur fyrir og uppúr aldamótunum 1900 vera kaflaskil.
57 Halldór Guðmundsson, „Loksins, loksins“, bls. 59.
58 Hér vaknar auðvitað sú spurning hvort umræðan um kvikmyndasýningar í Reykja-
vík á öðrum (og þriðja) áratugnum, sem og umræðan um nútímavæðingu í víðari
skilningi, snýr að þróun borgarlífsins þar eða e.t.v. fremur ímynd hinnar alþjóðlegu
stórborgar, þ.e. hvort um sé að ræða fyrst og fremst eins konar enduróm hinnar
alþjóðlegu umræðu? Ekki gefst ráðrúm í þessari grein til að bregðast við þessum
merkingaraukum eða sinna rannsóknarviðfangsefnunum sem spurningin opnar
og kallar fram en rétt er að geta hennar hér og láta hana standa sem eins konar
fyrirvara. Um þessi efni hefur hins vegar verið skrifað og má þar sérstaklega geta
greinar Benedikts Hjartarsonar, „Af úrkynjun, brautryðjendum, vanskapnaði, vitum
og sjáendum. Um upphaf framúrstefnu á Íslandi“, Ritið 1/2006, bls. 79–120, og
bókar Ólafs Rastrick, Háborgin. Menning, fagurfræði og pólitík í upphafi tuttugustu
aldar, Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan, 2013.
bJöRn ÞÓR vilhJÁlMsson