Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Qupperneq 190
189
einstakling sem skuldbundinn er náðargáfu sinni. Athygli vekur jafnframt
að velgengni í skemmtanaiðnaðinum er jafnað við afrek, að yfirstíga verði
„persónulegar hömlur“ til að ná árangri. Ljóminn fer þó nokkuð af orðum
Feilans ef hliðsjón er höfð af því hvernig Lóa var kynnt fyrir fjölmiðlum
sem tilbúinn „varningur“.
Þarna bregður Feilan sér heldur ekki einvörðungu í hlutverk málsvara
auðmagnsins og markaðshugmyndafræði kapítalismans, né er hann aðeins
að færa í orð lífsviðhorfið sem Karl Marx kenndi við „vörublæti“, heldur
stígur hann jafnframt fram með kröfu um fórn af ákveðnu tagi.76 Fórnin
felst í umbreytingu hugverunnar í verslunarvöru – nema að frá sjónarhorni
Feilans er ekki um fórn að ræða heldur rökvæðingarferli. Það er hins vegar
ekki endilega merkingarleg gjá sem skilur þar á milli, fórnin og tæknileg
rökhyggja nútímans eiga sitthvað sameiginlegt, líkt og Freud bendir á í
Undir oki siðmenningar og Adorno og Horkheimer fjalla ítarlega um í verki
sínu um díalektík upplýsingarinnar.
Ef hlustað er eftir hugtakanotkun Feilans þegar hann lýsir því sem hann
gerir má sjá hversu stutt virðist á milli þess að umbreyta einhverjum í fjár-
þúfu og svipta mennskunni. „Ég er fjölleikastjóri. Mitt hlutverk er að finna
númer“, segir Feilan stoltur í bragði þegar hann kynnir sig eitt sinn.77 Það
er athyglisvert að hann noti hugtakið „númer“ með þessum hætti. Öðrum
þræði virkar orðanotkunin sem bein þýðing úr ensku þar sem „number“
vísar til staks söng- eða dansatriðis, og vert er að taka fram að hugtakinu
fylgir enginn virðingarljómi á ensku.78
Samkvæmt Íslenskri orðabók er fyrsta merking orðsins þessi: „tala sem
sýnir sæti í röð“.79 Hugmyndin um númer sem „sæti í röð“ skírskotar til
76 Marx lýsir vörublætisáhrifunum sem eftirköstum djúpstæðs misræmis: „markaðs-
form vörunnar og verðmæti vinnuframlegðarinnar sem liggur henni að baki standa
ekki í nokkru einasta sambandi við efnislega eiginleika vörunnar eða vinnuferlin
sem framleiddu hana. Það sem hér er að eiga sér stað er að félagsleg vensl manna
á millum umbreytast í samband dauðra hluta við aðra dauða hluti.“ Karl Marx,
Capital. Volume 1, þýð. B. Fowkes, London: Penguin, 1976, bls. 164–165.
77 Halldór Laxness, Silfurtúnglið, bls. 43.
78 Áhrif enska hugtaksins náði einnig til dönsku, þar sem „nummer“ hafði ekki ósvip-
aða merkingu, og kann sá þjóðlegi uppruni einnig að spila inn í notkun Halldórs
á hugtakinu.
79 Íslensk orðabók, fjórða útgáfa, ritstj. Mörður Árnason, Reykjavík: Edda útgáfa, 2007,
bls. 715. Enda þótt notast sé við nýlega útgáfu orðabókarinnar er lítil ástæða til
að ætla að þessi grunnmerking hugtaksins hafi breyst frá ritunartíma leikverksins.
Einnig mætti í þessu samhengi hafa í huga orðalagið „hann/hún heldur að hann/
hún sé eitthvað númer“ – s.s. númer í merkingunni „einhver merkilegur“. Þegar
„TUNGLIð, TUNGLIð TAKTU MIG“