Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Side 192
191
siðferðislegum dómum. Samkvæmt Jónasi Þorbergssyni í Tímanum fjallar
leikritið um „örlög ungrar konu, sem hrekst milli tveggja skauta: Annars
vegar móðurástarinnar og ástar til eiginmannsins og fátæklegs heimilis,
hins vegar gylliboða um fé og frama“.82 Í Þjóðviljanum er að finna keimlíka
endursögn á sögufléttunni en við er bætt að „saga ungu konunnar“ sé
„mannleg og algild og gæti alstaðar gerzt“.83 Þar er jafnframt að finna
tilraun til sálfræðilegrar greiningar. Lóa yfirgefur heimili sitt af því að
hún „þráir fé og frama“ og „selur sig“ því Silfurtúnglinu, Feilan og Mr.
Peacock.
Stundum er rætt opinskátt um hórdóm en jafnvel þar sem Lóa er ekki
skilgreind á þann veg berum orðum er vandlætingunni miðlað í gegnum
kynjaða merkingarauka og skírskotunarkerfi borgarumhverfisins. Glys og
næturbrölt skemmtanaiðnaðarins tengist hugmyndum um lauslæti, óhóf
og siðferðisbresti. Það er því ýmist græðgi eða gredda sem veldur því að
Lóa „stekkur að heiman“ og „lokkast á glapastigu“.84 Í þremur dagblöðum
dugar Lóu þó ekki að „stökkva“ að heiman heldur „strýkur“ hún, líkt og
hún sé ekki sjálfráða.85 Samkvæmt blaðadómunum eru örlög Lóu ein-
faldlega dæmi um hvernig farið getur í ljósi eðlislægrar glysgirni kvenna,
hneigð þeirra til að láta tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur, og veik-
burða mótstöðuafls gegn freistingum (samanber söguna af Evu og for-
boðna eplinu).
Ákvörðun Lóu um að halda til Reykjavíkur var hins vegar túlkuð
með öðrum hætti tveimur áratugum síðar, þegar Silfurtúnglið var endur-
sviðsett árið 1975. Í áðurnefndri umfjöllun um sýninguna bendir Jónas
Guðmundsson á að leikritið fjalli „í raun og veru um mjög einfalda hluti.
Það fjallar einfaldlega um vinnu utan heimilis.“86 Þegar öllu er á botn-
inn hvolft er þetta einmitt það sem Lóa gerir, hún útvegar sér vinnu utan
heimilisins. Hér er þó ekki endilega um einfaldan hlut að ræða. Konur hafa
vitanlega ávallt unnið með ýmsum hætti og gjarnan haft meira fyrir stafni
en karlar. Vinna þeirra var þó löngum bundin við heimilið og bæði ólaun-
uð og lítils metin. Í kjölfar iðnbyltingarinnar tók konum hins vegar að
bjóðast launuð atvinna utan heimilisins. Sagnfræðingurinn Joan W. Scott
82 Jónas Þorbergsson, „Silfurtúnglið“, bls. 5.
83 Á. Hj., „Silfurtúnglið eftir Halldór Kiljan Laxness“, bls. 7.
84 Loftur Guðmundsson, „‘Silfurtunglið’“, bls. 5
85 „Silfurtúnglið“, bls. 9, Sigurður Grímsson, „Silfurtunglið“, bls. 9; Á. Hj., „Silfur-
túnglið eftir Halldór Kiljan Laxness“, bls. 7.
86 Jónas Guðmundsson, „Silfurtúnglið á öðru kvertéli“, bls. 9.
„TUNGLIð, TUNGLIð TAKTU MIG“