Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 193
192
hefur bent á að hin útivinnandi kona hafi orðið „sýnileg“ í fyrsta sinn um
miðja nítjándu öldina, en „sýnileikinn“ tengist með beinum hætti fjárhags-
legu sjálfstæði.87 Um var að ræða stórfellda röskun á aldagömlum hefðum
og samfélagsskipan. Breytingunum var mætt af hörku og eftirköst þeirra
hugmyndafræðilegu og samfélagslegu átaka sem brutust út má greina um
miðja tuttugustu öldina á Íslandi í umræðu blaðagagnrýnenda um „strok“
Lóu af heimili sínu í Silfurtúnglinu.
Misræmið milli hinnar hefðbundnu smábæjartilvistar sem Lóa segir
skilið við og „glamúrlífsins“ í Silfurtúnglinu er vissulega grundvöllur og
aflvaki frásagnarinnar. Að sumu leyti má segja að söguuppbygging sem
hverfist um sterkar andstæður (fortíðar og nútíðar, sveitar og borgar,
Íslands og útlanda, siðmenningar og náttúru, vísinda og visku) hafi tekið að
verða nokkuð áberandi í verkum Halldórs á síðari hluta ferilsins, og mætti
þar nefna Brekkukotsannál (1957), Guðsgjafaþulu (1972) og síðleikritin þrjú,
Strompleikinn (1960), Prjónastofuna Sólina (1962/1966) og Dúfnaveisluna
(1966).88
Þetta „einkenni“ á síðari verkum Halldórs er iðulega kennt við „tvo
heima“, enda höfundurinn sjálfur sem fyrstur bryddaði upp á þessari túlk-
unarleið, og eins og Jón Viðar Jónsson bendir á þá bregður hugtakinu
sérstaklega oft fyrir í umræðum um síðustu þrjú leikverkin: „Leikritum
Laxness hefur stundum verið lýst svo að í þeim takist á tveir heimar, annar
siðlaus, gráðugur, falskur og miskunnarlaus, hinn sannur, fagur og góður.
Þar sé teflt fram andstæðum í verðmætamati, annars vegar nægjusemi og
sátt við guð og menn, hins vegar taumlausri eftirsókn í veraldleg gæði.“89
87 Joan W. Scott, „The Woman Worker“, A History of Women in the West. IV. Emerg-
ing Feminism from Revolution to World War, ritstj. Geneviéve Fraisse og Michelle
Perrot, Cambridge og London: The Belknap Press of Harvard University, 1993,
bls. 402.
88 Umfangsmikilla andstæðupara sem þessara gæti vitanlega víðar í höfundarverki
Halldórs. Textagreining sem notar þau sem stökkpall í túlkanir á miðlægum
viðfangsefnum verður hins vegar að geta sýnt að þau séu sett í forgrunn með
meðvituðum hætti en taki sér ekki einfaldlega bólfestu í textanum vegna þess að í
skáldverki rúmast „allskonar farangur“, eins og Halldór orðar það sjálfur.
89 Jón Viðar Jónsson, „Var Halldór Laxness gott leikritaskáld?“ bls. 30. Stefán Bald-
ursson tekur í sama streng: „Í stuttu máli má segja, að hér sé um að ræða hinn
ómengaða og upprunalega heim nægjusemi, hversdagsleika og lítillætis annars
vegar og brenglaðan heim siðblindu, sölumennsku og efnalegra allsnægta hins
vegar.“ Vitnað er í ritgerð sem Stefán Baldursson birti í leikskrá Þjóðleikhúss-
ins. Sjálfstætt fólk, 1999. Tilvitnun sótt í Halldór Guðmundsson, Halldór Laxness.
Ævisaga, Reykjavík: JPV forlag, 2004, bls. 670.
bJöRn ÞÓR vilhJÁlMsson