Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 194
193
Það er ennfremur óhætt að halda því fram að það sé einmitt á forsendum
„tveggja heima“-kenningarinnar sem Silfurtúnglið hefur oftast verið túlk-
að, og er þá sjónum jafnan beint að syndafalli Lóu.
Hún yfirgefur hinn sanna, fagra og góða heim til að öðlast frægð í sið-
lausum og fölskum heimi fjölleikahússins, og fyrir það hlýtur hún þunga
refsingu. Barnið sem hún yfirgefur í byrjun leiks deyr í lok hans. Beint
virðist svo liggja við að tengja fall Lóu pólitískri undiröldu verksins, líkt og
Peter Hallberg gerir, en hann túlkar Universal Concert Incorporated sem
hliðstæðu eða táknræna birtingarmynd NATÓ. Svik Lóu við karlmennina
í lífi sínu, eiginmann og ungan son og þær siðferðislegu og „eðlislægu“
kvenlegu skyldur sem hún bar gagnvart þeim, kallast jafnframt á við föð-
urlandssvikarana sem eru í óða önn að varpa sjálfstæði og hlutleysi þjóðar-
innar fyrir róða með því að selja þjóðina inn í erlent hernaðarbandalag: „Í
samtökum hinna voldugu gæti íslenzk þjóð vænzt sama hlutskiptis og Lóa
hjá Universal Concert Incorporated. Smán Lóu er þannig smán landsins.
Barn hennar í líkkistunni eru komandi kynslóðir, framtíð þjóðarinnar.“90
„Tveggja-heima“-hugmyndin kallar fram aðra mikilvæga aðgrein-
ingu, þá sem gerð er milli kvenna sem eru siðsamar og hinna sem eru
það ekki. Meyjunnar og hórunnar, góðu konunnar og þeirrar vondu. Nær
allar aðrar skilgreiningar, flokkunarkerfi og hugmyndafræðileg mótun
byggðu á þessum einfalda grunni, hugmyndatvennd sem Janet Steiger
lýsir í bandarísku samhengi sem svo fastmótaðri og óbifanlegri að líkja
megi við fjallgarð.91 Auðvitað er ekki hægt að tala um beina samsvörun
milli Bandaríkjanna og Íslands í þessu samhengi. Á hitt má þó benda að
hugmyndafræðilegu áherslurnar voru keimlíkar í hinum iðnvædda heimi á
þessum tíma, og sama gildir um valdamisvægið og harðsvíraða hagsmuna-
baráttu feðraveldisins gegn kvenréttindabaráttunni, sem fór gjarnan fram
í skjóli siðferðissjónarmiða. Þá er einnig rétt að hafa í huga að þær við-
tökur Silfurtúnglsins sem beindu sjónum að siðspillingu Lóu svipar mjög
90 Peter Hallberg, Hús skáldsins I. Um skáldverk Halldórs Laxness frá Sölku Völku til
Gerplu, þýð. Helgi J. Halldórsson, Reykjavík: Mál og menning, 1970, bls. 212.
91 Janet Steiger, Bad Women. Regulating Sexuality in Early American Cinema, Minnea-
polis: University of Minnesota Press, 1995, bls. 44. Sjá einnig í þessu sambandi
Mary E. Odem, Delinquent Daughters. Protecting and Policing Adolescent Female
Sexuality in the United States, 1885-1920, Chapel Hill og London: The University
of North Carolina Press, 1995.
„TUNGLIð, TUNGLIð TAKTU MIG“