Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Side 195
194
til umræðunnar um kynferðislegt samneyti íslenskra stúlkna og kvenna og
bandarískra hermanna, sem var áberandi á sjötta áratugnum.92
Það er því mikilvægt að missa ekki sjónar á því hversu eldfim kyn-
verund kvenna var á tíma leikritsins, og var það þó ekki í fyrsta sinn sem
Halldór hreyfði við þessu viðfangsefni. Fyrsta leikrit Halldórs, Straumrof,
þótti ærin hneykslunarhella og aðeins fimm sýningar voru haldnar, en
það voru siðferðisbrestir aðalpersónu verksins, Gæu Kaldal, sem kölluðu
fram viðbrögðin. Gæa hrífst af og sefur hjá yngi manni sömu nótt og eig-
inmaður hennar fellur frá. Þetta gerir hún án eftirsjár og lítur jafnvel á
reynslu næturinnar sem frelsandi. Harðar deilur geisuðu í fjölmiðlum um
framsetningu leikritsins á konum en sýnu erfiðast þótti karlkyns gagnrýn-
endum að færa í orð hugmyndina um kynhvöt kvenna og mögulega nautn
þeirra af kynlífi. Þess í stað var ítrekað rætt um Gæu sem móðursjúka, geð-
veika, stjórnlausa og dýrslega.93 Áratugum saman var Straumrof jafnframt
illfáanlegt á prenti, og hefur verið lýst sem eins konar neðanjarðarverki í
íslenskri bókmenntasögu.94
Í Silfurtúnglinu er ákvörðun Lóu um að halda til Reykjavíkur drekk-
hlaðin eldfimum skírskotunum, eins og greina mátti í þeirri umfjöllun
dagblaða um leikritið sem rædd er hér að framan. Það að Lóa láti „freist-
ast“, hún sé „keypt“, hún „strjúki“ sýnir hversu harkalega textinn rekst á
ráðandi gildismat og sýn á stöðu konunnar í þjóðfélaginu. Að vissu leyti
er ofsafengin umræðan um freistingar og siðspillingu aðferð til að nálgast
truflandi eðli tiltekinna samfélagsbreytinga. Ber þar hæst árangur kven-
frelsisbaráttunnar, aukið sjálfstæði kvenna, lagalegt og fjárhagslegt, því
þótt hegðunarreglur væru enn strangar fyrir konur hafði umráðasvið þeirra
margra stóraukist. Kom það til af félagshegðun sem einmitt er til umfjöll-
unar í leikriti Halldórs, útivinnandi konur gátu séð fyrir sér sjálfar.
92 Sjá hér Herdís Helgadóttir, Úr fjötrum. Íslenskar konur og erlendur her, Reykjavík:
Mál og menning, 2001.
93 Frekar má lesa um þetta í Björn Þór Vilhjálmsson, „Legofsi og hjónabandsmas:
Vergirni, móðursýki og nútími í Straumrofi Halldórs Laxness“, Ritið 2/2014, bls.
111–152.
94 Aðalsteinn Ingólfsson hefur rætt stöðu verksins í íslensku menningarlífi á forsend-
um sem bera keim af umræðum um neðanjarðarverk: „[Straumrof] var prentað í
örsmáu upplagi og hefur verið einna minnst þekkt og lesið af verkum skáldsins,
nema hvað ýmsir sem hafa komist í bók þessa af tilviljun hafa lengi haft á því sér-
kennilegt dálæti“. „Hvaða straumar?“, Dagblaðið, 18. mars, 1977, bls. 4.
bJöRn ÞÓR vilhJÁlMsson