Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 202
201
talgískri tálsýn þeirri er hann smíðar umhverfis sviðsímynd Lóu. Þannig
beinir verkið spjótum sínum að kaupstaðarlífinu. Með afar fumlausum en
nær ósýnilegum handtökum notar leikritið mynd af smábænum til að birta
kúgandi stjórntæki hugmyndafræðinnar; hugmyndafræði sem beitir öllum
brögðum til að halda konum uppteknum í krakkavaðnum, sópandi ryk af
húsgögnunum eða gefandi skipanir um grautinn, sefasjúkum, fáfróðum
og óléttum. Og álasar Lóu svo fyrir að hafa borið í brjósti drauma um
áhugaverðara líf, frama og sjálfstæði. Það að loforð Silfurtúnglsins og Mr.
Peacocks séu gylliboð að mestu, hálfgerðar draumaborgir, og að þar bíði
hennar annars konar valdamisvægi, og að verða „númer“ í menningar-
iðnaðinum, felur auðvitað í sér áfellisdóm af öðru tagi en ekki endilega
þyngri. „Dýrðarljóminn“ sem Lóu var lofaður reynist álappaleg og ósönn
fjarvistarsönnun fyrir glæpsamlegt samfélag kerfisbundins misréttis, plást-
ur á svöðusár – en það verður ekki annað sagt en að hún hafi reynt að finna
sér betri heim.
ú T D R Á T T U R
„Tunglið, tunglið taktu mig“
Menningariðnaður og kynferði í Silfurtúngli Halldórs Laxness
Silfurtúnglið var frumsýnt árið 1954 og er annað frumsamda leikrit Halldórs Lax-
ness. Í greininni er skoðað hvernig leikritið setur fram mynd af rökvísi nútímalegs
skemmtanaiðnaðar í gegnum frásögn af Lóu, nýbakaðri móður á landsbyggðinni, er
ákveður að reyna fyrir sér sem söngkona á fjölum eins konar kabarett-leikhúss í höf-
uðstaðnum. Skemmtistaðurinn nefnist Silfurtúnglið og á í nánu samstarfi við banda-
ríska afþreyingarsamsteypu er starfar á alþjóðavettvangi, og svipar um margt til
kvikmyndavera stúdíótímabilsins. Gagnrýni leikritsins á starfsemi bæði Silfurtúngls-
ins og samsteypunnar er rædd í samhengi við hugmyndir Theodors W. Adorno og
Max Horkheimers um menningariðnaðinn, en jafnframt sett í samhengi við fyrri
skrif Halldórs um bandaríska kvikmyndaiðnaðinn. Þá eru kynferðissjónarmið verks-
ins sérstaklega dregin fram og að lokum er stungið upp á nýrri túlkunarleið, er legg-
ur áherslu á að í verkinu sé ekki aðeins ofannefnd viðhorf að finna heldur sé svigrúm
leikritsins víðara en svo, og feli jafnframt í sér gagnrýni á þá nostalgísku staðalímynd
af ósnortnu og saklausu sveitalífi sem birtist í verkinu.
Lykilorð: Halldór Laxness, Silfurtúnglið, leikrit, íslensk bókmenntasaga, menningar-
iðnaður
„TUNGLIð, TUNGLIð TAKTU MIG“