Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Qupperneq 236
235
andlit I eins og dregið væri yfir það krossmarki og hendi hennar á lofti.
Mér sortnaði fyrir augum.
Enn eitt örmjótt hár; hlé; allt kyrrt; hjartsláttur. Svo var sem einhver
brjálaður hljómsveitarstjóri hefði gefið merki, allt í einu brak og brestir á
öllum pöllum, óp og köll, únifur blaktandi á hlaupum, ráðlausir Verndarar
æðandi um, skóhælar einhvers beint við augu mín og hjá hælunum gal-
opinn munnur einhvers að því kominn að springa í ópi sem ekki heyrist.
Einhverra hluta vegna skarst einmitt þetta greinilegast inn í mig: þúsundir
organdi munna sem ekki heyrast – eins og á tröllslegu sýningartjaldi.
Og eins og á tjaldi – einhversstaðar langt fyrir neðan mig bregður fyrir
hvítnuðum vörum O í eina sekúndu : henni hafði verið þrýst upp að vegg í
gangi og hún varði kvið sinn með krosslögðum höndum. Svo er hún horf-
in, henni var skolað burt eða ég gleymdi henni vegna þess að....
Þetta er ekki lengur á tjaldi, þetta er í sjálfum mér, í samanherptu hjarta,
í tíðum æðaslætti á gagnaugun. Fyrir ofan höfuð mitt, á palli til vinstri,
stökk R-13 allt í einu af stað, froðufellandi, eldrauður, snaróður. Hann hélt
á I, hún var náföl, únifa hennar rifin frá öxl að brjósti, blóð á hvítu klæði.
Hún hélt fast um háls hans og hann hljóp með hana upp í stórum stökkum,
pall af palli, andstyggilegur og fimur eins og górilla.
Allt varð dumbrautt eins og í eldsvoða hjá fornmönnum og aðeins eitt
komst að: að stökkva og ná þeim. Ég get ekki útskýrt það nú hvaðan mér
kom slíkt afl, en ég klauf mannþyrpinguna eins og múrbrjótur – og nú var
ég kominn nálægt þeim, nú greip ég í hálsmálið á R:
Dirfstu ekki! Þú vogar þér ekki, segi ég. Slepptu eins og skot (sem betur
fór heyrðist ekki til mín, allir æptu og hver sitt, allir voru á hlaupum).
Hver er þetta? Hvað gengur á? Hvað? – R sneri sér við, frussandi varir
hans titruðu, hann hélt víst að einhver Verndaranna hefði náð á honum
taki.
Hvað? Já en ég vil ekki, ég leyfi ekki! Slepptu henni, strax!
En hann gerði ekki annað en slá saman vörum, hristi hausinn og hljóp
áfram. Og þá – ég skammast mín geypilega fyrir að skrifa þetta niður,
en mér finnst að mér sé skylt að skrá allt svo að þið, lesendur mínir sem
ég ekki þekki, getið stúderað til fulls sögu sjúkdóms míns – þá lamdi ég
hann í hausinn af öllum kröftum. Skiljið þið: ég barði hann! Það man ég
greinilega. Ég man annað líka: við þetta högg fann ég til einhverskonar
frelsunar, léttleika í öllum líkamanum.
I smaug hratt úr höndum hans.
VIð (BROT)