Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Síða 237
236
Farðu, æpti hún til R, þú sérð að hann.... Farðu, R, farðu!
R lét skína í hvítar negratennur sínar, frussaði einhverju orði framan í
mig, steypti sér niður og hvarf. En ég tók I í fangið, þrýsti henni fast að
mér og bar hana burt.
Hjartað í mér sló eins og það hefði stækkað að miklum mun og með
hverju slagi spýtti það út ofsafenginni, heitri og gleðilegri öldu. Látum svo
vera að þarna hafi eitthvað brotnað í þúsund mola – skiptir engu! Ef ég get
ekki annað en borið hana svona og borið og borið....
Um kvöldið klukkan 22.
Ég get með naumindum haldið á penna, þreytan er svo yfirþyrmandi eftir
alla þessa svimandi atburði morgunsins. Getur það verið að nú hafi hrunið
aldagamlir veggir Sameinaða Ríkisins sem hafa til þessa bjargað okkur?
Getur það verið að við séum aftur án skjóls í villtu ástandi frelsisins eins og
löngu horfnir forfeður okkar? Getur það verið að Velgjörðamaðurinn sé
ekki lengur á lífi? Á móti... voru þau á móti honum á Degi Eindrægninnar?
Ég skammast mín fyrir þau, mig tekur sárt til þeirra, ég er dauðhræddur
þeirra vegna. Og vel á minnst, hver eru „þau“? Og hver er ég sjálfur: „Þau“
eða „Við“ – eins og ég geti vitað það.
Þarna situr hún á sólheitum glerbekk á efsta áhorfendapalli en þang-
að bar ég hana. Hægri öxlin og þar fyrir neðan, þar sem þessi heillandi
óútreiknanlega skálína byrjar, þetta er allt opið; þar skríður örmjó slanga
úr blóði. Það er sem hún taki ekki eftir blóðinu, eftir því að brjóst hennar
er nakið... nei, öðru nær: hún sér það allt, en þetta er einmitt það sem hún
hefur þörf fyrir nú, og ef únifa hennar væri nú aðhneppt, þá mundi hún
rífa hana af sér, hún....
En á morgun... hún dregur andann með áfergju gegnum samanbitnar
hvassar tennur sínar. Á morgun veit enginn hvað verður. Skilurðu það:
hvorki ég né nokkur annar veit það – það er óþekkt! Skilurðu nú að allt
það þekkta er á enda? Hið nýja, ólíklega, áður óséða...
Þarna fyrir neðan er sem sjór rjúki, allir á þönum, æpandi. En það er
allt langt í burtu, og færist enn lengra frá mér því hún horfir á mig, hún
dregur mig hægt inn í sig gegnum þrönga gullglugga sjáaldranna. Þannig
lengi, þegjandi. Og einhverra hluta vegna rifjast það allt í einu upp fyrir
mér hvernig ég eitt sinn horfði gegnum Græna Vegginn inn í óskiljanleg
gul sjáöldur einhvers og yfir Veggnum flögruðu fuglar (eða kannski var
það í eitthvert annað skipti).
Jevgení ZaMJatín